Örplast - snyrtivörur af öllu tagi!
- Bjarkey O Gunnarsdóttir

- Nov 14, 2019
- 2 min read

Ræddi um örplast í störfum þingsins.
Umhverfismál eru ofarlega á baugi og í Heimsljósi var frétt sem bar yfirskriftina „Blásið til herferðar gegn örplasti í snyrtivörum“.
Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna spyr: Hvað er í baðherberginu hjá þér?
Um leið og fólk er hvatt til að skoða snyrtivörur í baðherberginu sínu er tilgangurinn að fá almenning til að hugsa um þann skaða sem örplast í þeim vörum getur valdið. Um er að ræða herferð sem kemur í framhaldi af nýlegri skýrslu þar sem fram kom að snyrtivörur geta innihaldið örplast sem endar í hafinu og flyst með sjávarlífverum sem verður til þess að við sem neytum fisks borðum það örplast. Örplast er agnarsmátt eða undir 5 míkró millimetrum að stærð. Vísindamenn segja að snyrtivörur geti innihaldið allt að 360.000 örperlur. Þeim sé skolað niður um frárennsli, þær síast ekki frá með hreinsibúnaði og berast því auðveldlega út í heimshöfin. Þær líti út eins og matur og því séu þær étnar af fiskum og komist þannig inn í fæðukeðjuna.
Talið er að á ári hverju endi 8 milljónir tonna af plasti í hafi. Það jafngildir því að á hverri einustu mínútu tæmi einn sorpbíll rusl í hafið. Þessi útbreiðsla á örplasti og einnota plasti sem stækkar vandann enn meira en ella er gríðarlegt áhyggjuefni. Við erum líklega allt of kærulaus varðandi örplastið sem er jú ósýnilegt. Maður veltir þessu ekkert sérstaklega mikið fyrir okkur, held ég, þegar maður setur á sig krem eða þvær sér um hárið eða hvað það nú er. Milli 60–90% af því rusli sem safnast upp við strendur, á yfirborði sjávar og á sjávarbotni er plast og er talið að það skaði um 800 tegundir sjávarlífverur og þar af 15 sem eru í útrýmingarhættu.
Það er ekki bara lífríki sjávar sem er í hættu heldur má gera ráð fyrir heilsufarslegum afleiðingum örplasts á fólk þó að það sé ekki að fullu þekkt. Ef fólk vill fylgjast frekar með þessu býður Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna öllum að skoða vörur á baðherbergjum sínum og sækja um það upplýsingar á Instagram-reikningi stofnunarinnar hvernig taka megi þátt í átakinu. Ég hvet fólk til að kíkja þar inn.






Comments