Vikubók sviðsstjórans 10. - 16. nóvember
- Bjarkey O Gunnarsdóttir

- Nov 16
- 3 min read
Mánudagurinn hófst með fjárhagsáætlunaryfirferð með bæjarstjóra og Kristínu leikskólastjóra og þar á eftir með Helgu forstöðukonu á Skálarhlíð.

Við tók svo allskonar úrvinnsla í hinum ýmsu málum. Við bæjarstjóri funduðum svo með Skarphéðni, forstöðumanni íþróttamiðstöðvanna eftir hádegi og deginum lauk svo um kvöldmat eftir fínan fund með fræðslu-og frístundanefnd um fjárhagsáætlun málaflokksins.
Á þriðjudaginn funduðum við Helga með MMS (Miðstöð menntunar og skólaþjónustu) vegna Heillasporaverkefnisins. Alltaf gott og gagnlegt að heyra í fólki sem er að takast á við sambærileg verkefni.

Eftir hádegi var mánaðarlegi fundur VMST um fjölmenningu og þar voru erindi frá Joanna Marcinkowska, sem er verkefnastýra inngildingar í Jafnréttis- og inngildingarteymi Háskóla Íslands og Juan Camilo Roman Estrada, fjölmenningarfulltrúa og verkefnastjóra Spretts á vegum HÍ. Þau fjölluðu um inngildingarverkefni opinberra háskóla og nýsköpunarverkefnið Sprett. Mér finnst þetta áhugavert enda umhugað um að við styðjum fólk af erlendum uppruna sem býr í Fjallabyggð.
Símtöl tekin og tölvupóstum svarað. Skoðaði svo atriði tengd heilsueflandi samfélagi en ég er að boða stýrihóp til skrafs og ráðagerða í byrjun desember.
Fundaði svo með Sunnu, starfandi forstöðukonu Hornbrekku.
Þegar heim var komið dreif konan sig í sláturgerð en slátur hef ég ekki tekið í líklega 10 -12 ár. Fanta gaman og bragðaðist bara ljómandi vel.

Byrjaði miðvikudaginn á að svara nokkrum tölvupóstum og svo tók við sitt lítið af hverju. Við bæjarstjóri funduðum með Golfklúbbi Fjallabyggðar og í beinu framahaldi funduðum við þríeykið á okkar reglulega fundi. Ekkert varð úr hádegishléi konunnar þar sem komið var að fundi starfshóps sem fjallað hefur um breytta skipan leikskóla.
Skellti mér svo í ræktina að vinnudegi loknum enda ekki vanþörf á að liðka kroppinn eftir miklar setur.
Þessum degi lauk svo með kvenfélagskonum þar sem við ræddum undirbúning jólakvöldsins sem haldið verður í Ólafsfirði föstudaginn 5. des. og við munum taka þátt í. Hvet að sjálfsögðu öll til að kíkja í „húsið okkar“ það kvöld.

Á fimmtudeginum tókst mér að ganga frá allskonar „lausum endum“ sem safnast höfðu upp og þegar leið að hádegi var ég nokkuð sátt við morgunverkin.
Upplýsingafundur var eftir hádegi vegna ferðar ungmennaráðsfulltrúa á fund, sem ég hef áður sagt frá og verður í byrjun desember, mikilvægt að öll séu á sömu blaðsíðu eins og sagt er.
Það var líka mjög áhugavert málþing hjá ÍSÍ þar sem farið var yfir margskonar þætti er varða heilsu og heilbrigði eldra fólks. Við Hanna Sigga sátum þetta málþing og munum taka með okkur margt sem þarna kom fram og vinna með hér heima.
Föstudeginum varði ég svo í Ólafsfirði, en eins og ég sagði í síðasta vikupistli ætla ég að vera í Ólafsfirði á föstudögum. Vann mig í gegnum nokkur mál sem setið höfðu á hakanum. Fundaði svo með félögum mínum í Grunni, félagi fræðslustjóra, í hádeginu. Að því búnu hittumst við Hjörtur og fórum yfir okkar hlut í fjárhagsáætlunni enda skil eftir helgina. Ræddum líka ýmis mál er varða sviðið. Ég er ný í þessum málaflokki og gott að hafa einhvern með sér sem kann málaflokkinn afturábak og áfram eins og sagt er.


Konan endaði svo daginn á því að láta klippa sig og lita.
Laugardagurinn byrjaði á því að ég þóttist hjálpa til við að setja upp útiseríuna á H-71 en var líklega betri í laufabrauðsgerð og bakstri.


Sunnudeginum var ég ákveðin í að nýta til þess að fara í göngutúr og svo kíkti ég á þau feðgin í Túngötunni þar sem þau eru alla daga eftir sína vinnu. Styttist í að heimasætan flytji í sitt kot. Seinnipartinn flutti ég hugvekju á minningardegi þeirra sem hafa látist í umferðarslysum á Sigló. Hlýddi svo á fallega hugvekju sem Sigga Guðmunds flutti í Ólafsfirði af sama tilefni. Falleg og góð stund í Fjallabyggð.
Framundan vinnuvikan sem ég hlakka til eins og alltaf.






Comments