top of page

Vikubók sviðsstjórans 17. - 23. nóvember

  • Writer: Bjarkey O Gunnarsdóttir
    Bjarkey O Gunnarsdóttir
  • Nov 24
  • 3 min read

ree

Mánudagurinn hófst á því að svara tölvupóstum, fara í gegnum allskonar reikninga og svara símtölum. Eftir hádegi fór ég svo til Akureyrar á fund með MEMM, sem er þróunarverkefni sem miðar að því að styðja við menntun og inngildingu barna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn í íslensku skóla- og frístundastarfi. Þar var farið yfir ýmsa gagnlega hluti sem koma að góðum notum við mótun skólaþjónustunnar. Einnig voru sveitarfélögin hvött til að setja sér innflytjendastefnu og móttökuáætlun.


Fyrri hluti þriðjudagsins fór svo í vinnufund um  framtíðarsýn í málefnum aldraðra. Fengum Halldór Guðmundsson til skrafs og ráðagerða og munum halda samtalinu áfram í vetur.



ree

Á samráðsfundi Sambandsins með Grunni, félags fræðslustjóra, fór Helgi Aðalsteins, fulltrúi Sambandsins í starfshóp um mat og reynslu af gjaldfrjálsum skólamáltíðum yfir helstu atriði úr skýrslu sem búið er að taka saman. Almenn ánægja er með hvernig til hefur tekist og fleiri börn nýta sér máltíðirnar en áður. Taka á betur utan um nokkur atriði m.a. matarsóun og eftirlit með gæðum og næringarinnihaldi máltíða. Þau sem vilja kynna sér niðurstöðurnar betur smellið hér.


Síðan fundaði ég með nokkrum fulltrúum grunnskólans vegna Heillasporaverkefnisins sem fer í gang á næsta ári.



ree

Deginum lauk ég með því að fylgjast með mjög áhugaverðu málþingi íslensku æskulýðsrannsóknarinnar þar sem farið var yfir stöðu farsældarvísanna. Farið var yfir líðan í skóla, áskoranir í lýðheilsu barna og ungmenna, börn í viðkvæmri stöðu og fleira. Allt mjög áhugavert og fræðandi sem gott er að taka með sér í áframhaldandi vinnu. Hérna má sjá ýmislegt um þessi mál og hér er hægt að horfa á málþingið.



ree

ree

















Allskonar úrvinnsla ýmissa mála á miðvikudaginn

fyrir fund okkar í þríeykinu. Skaust svo í Ólafsfjörð þar sem ég sat fund LEB og félags eldri borgara í Ólafsfirði en LEB er á ferð um landið til að fara yfir ýmsa þætti er varða eldri borgara.


Á fimmtudaginn hittum við Helga stöllur okkar úr Þingeyjarsveit á teams fundi vegna Heillasporaverkefnisins.



ree

Fylgdist svo með heilbrigðisþingi sem að þessu sinni var helgað heilbrigðistengdri endurhæfingu. Rætt um mikilvægi þess að vera með snemmtæka íhlutun og samræmt mat á þörf fyrir endurhæfingu. Mörg mjög fróðleg erindi og mér fannst umræðan um að nota þurfi gagnreyndar árangursmælingar mikilvæg. Hér er krækja á þingið.

Vann svo að endurskoðun fyrirkomulags vegna breyttra samninga í sálfræðiþjónustu sem sveitarfélagið er að kaupa.

Síðan tók við forvinna við erindi sem ég hyggst halda næsta vor á European Social Services Conference.

Endaði svo daginn á litlu jólum kvenfélagsins í Tjarnarborg sem var alveg frábært.


Tók svo á móti Davíð og fjölskyldu sem komu í hús rétt fyrir miðnætti og ætla að vera hjá okkur yfir helgina.

ree

Að vanda var ég á skrifstofunni í Ólafsfirði á föstudeginum. Hélt áfram með að undirbúa erindið góða frá því deginum áður enda mikilvægt að útbúa slíkt svo vel sé.

Fundaði svo með stjórn Grunns þar sem við ræddum m.a. fyrirkomulag í leikskólamálum, byggingum og fleira.

Átti svo eitt viðtal á skrifstofunni í enda dags.

Fór með samstarfsfólki mínu á bæjarskrifstofunni ásamt mökum á Síldarkaffi þar sem framreiddur var dýrindis jólamatur.

ree





Á laugardaginn naut ég mín með barnabörnin og við heimsóttum m.a. skógræktina á Sigló í einmuna blíðu. Lauk kvöldinu á jólahlaðborði á Hvanndölum sem var alveg frábært.


Sunnudagurinn fór í allskonar, við Helgi sóttum sviðsmyndina fyrir jólasveinasýninguna í Pálshúsi og þar á eftir byrjuðum við að tína til útijólaskraut í Hlíðarveginn, einhver handtök eftir þar. 😉Kláraði svo Sörurnar og kvöldinu lauk svo á því að klára að horfa á jólamynd fyrir háttinn.


Framundan ný vinnuvika.



 



 

 
 
 

Comments


  • facebook
  • twitter
  • linkedin

©2023 BY BJARKEY OLSEN

bottom of page