top of page

Ör annáll 2025

  • Writer: Bjarkey O Gunnarsdóttir
    Bjarkey O Gunnarsdóttir
  • Dec 24, 2025
  • 3 min read

Fyrir ykkur sem viljið sjá fleiri myndir þá eru þær á fésbókinni.


Árið byrjaði í rólegheitum en við hjónin fórum til Seefeld á gönguskíði enda vetur hér í Ólafsfirði með eindæmum lélegur og skíðafæri afleitt.


Konan skráði sig í leiðsögunám í janúar svona til að hafa eitthvað að gera.


Lét svo plata mig í að vera formaður Kvenfélagsins Æskunnar í febrúar.


Þar sem konan sló í sextugt í febrúar var haldin veisla með góðum vinum og fjölskyldu.


Tristan, elsta barnabarnið, var svo fermdur í apríl þar sem fjölskyldan naut góðrar samveru.


Húsfrúin fór svo í atvinnuviðtal og var ráðin til starfa sem sviðsstjóri velferðarsviðs í Fjallabyggð. Starf sem hingað til hefur reynst afar skemmtilegt og gefandi.


Það var svo 25. apríl sem konan tók flugið til Frakklands þar sem hún hóf langþráða göngu á vegi Jakobs. Ætlunin var að ganga hina fornu leið sem kallast franska leiðin og er um 800 km. Hóf svo ferðina yfir Pirena fjöllin 27. apríl í birtu fyrstu 8 km. af 25 km. en síðan mikil þoka og helli rigning í miklum bratta og drullu ekki síst niður fjöllin til Roncelvalles. En þetta hafðist og konan sannfærð um að það versta væri afstaðið sem var nú ekki alveg.


Kynntist mörgu fólki frá ýmsum löndum, þrjú eru mér ofarlega í huga, Aisha en við gengum saman og hún sagði mér frá því að hún hefði orðið fyrir niðurskurði Trump þar sem hún vann fyrir stofnun svipaða og Unicef, Len, sem er 75 ára ástralskur skilnaðarlögfræðingur/sáttamiðlari, Oscar sem er Baski og var afar fróður um sögu Spánar og fræddi mig heilmikið þá daga sem við gengum saman. Allskonar annað fólk og par frá Þýskalandi sem ég rakst á af og til alla leiðina allt var ljúft og notalegt fólk að kynnast þó stutt væri.


Helgi minn kom svo til mín þegar ég átti viku eftir af göngunni – tveimur dögum fyrir Santiago de Compostela en við héldum svo áfram til Finisterre þar sem forfeður okkar héldu að heimurinn endaði enda væri jörðin flöt. Þar má finna eitt af þekktum merkjum sem einkenna veg Jakobs og merkt er með 0 km.

Heildargangan mín var 930 km. Ég er líklega komin með bakteríuna því ég fór strax að skipuleggja næstu ferð. Ég gerði svo tilraun til að skrásetja ferðina á youtube og tel að það sé gott því ýmis smáatriðið ”týnast í kollinum” í svo langri ferð og gott og gaman að geta rifjað upp.



Við hjónin vorum svo rétt lent á klakanum þegar lítil blómarós leit dagsins ljós – betri heimkomu var nú vart hægt að hugsa sér.


En nú beið nýja vinna húsfrúarinnar og sumarið fór í að læra og kynna sér hin ýmsu mál er tengjast starfinu. Hitti alla forstöðumenn er undir mig heyra fyrir þeirra sumarfrí sem var gott fyrir mig til undirbúnings þess sem koma skyldi.


Tók á móti forseta vorum í tengslum við UMFÍ 50+, flutti nokkur ávörp við ýmis tilefni og sinnti sjálfboðaliðastörfum í kvenfélaginu okkar, allt mjög skemmtilegt.


Við hittumst svo skólasystkinin árgangur 1965 bæði frá Sigló og Ólafsfirði þar sem við fögnuðum 60 ára afmæli þetta árið.


Góðir vinir og fyrrverandi aðstoðarmenn kíktu svo í kaffi með fjölskyldurnar í sumar sem var æðislega gaman.


Jói pabbi og tengdapabbi kvaddi okkur í vor eftir stutt veikindi og eins og ævinlega þegar okkar nánasta fólk fellur frá er tilveran dálítið öðruvísi.


Helgi minn vann öllum stundum í Túngötu 15 í Óló ásamt Klöru við að standsetja og núna í árslok hillir undir að heimasætan geti flutt í sitt eigið húsnæði.


Við systkinin Helga og Ásgeir hittumst í Dublin og áttum saman frábæra helgi. Þetta verður reglulegur viðburður hjá okkur að hittast öll saman einu sinni á ári.


Við hjúin sóttum tónleika, fórum á Káta daga á Akranesi og Mærudaga á Húsavík, tókum þátt í Fjarðahlaupinu, gengum á Grænahrygg og víðar í sumar.




Skruppum svo til Dresden í aðventuferð beint frá Akureyri sem var afskaplega gaman.


Af börnunum er allt fínt að frétta. Eins og ég sagði þá bættist hún Evíta Eldey við barnabarna hópinn en þau eru nú orðin þrjú hjá Davíð og býr hann ásamt Ástu með hópinn á höfuðborgarsvæðinu. Það gerir Jódís Jana líka sem unir sér vel hjá Elko þar sem hún á góða og trausta vini. Klara Mist er svo skipper og leiðsögumaður í hvalaskoðun á Dalvík.


Nú eru þau öll hjá okkur yfir jólin og þá er ekki hægt að biðja um meira. Að vanda skötuveisla á Þorláksmessu með öllu tilheyrandi og vinaheimsókn að kveldi. Möndlugrautur í hádeginu á aðfangadag og Tristan fékk möndluna að þessu sinni.


Við hjúin aldrei verið búin svona snemma að skreyta og græja – það kláraðist sko 21. des. svo við bara höllum okkur aftur og njótum samverunnar.


Megið þið öll eiga kærleiksrík jól og njóta með ykkar ástvinum en hugsum til þeirra sem erfitt eiga og sendum hlýja strauma.


Vona að nýja árið færi okkur öllum birtu, kærleik og yl.



Jólaknús

Bjarkey, Helgi og viðhengin öll

 
 
 

Comments


  • facebook
  • twitter
  • linkedin

©2023 BY BJARKEY OLSEN

bottom of page