Rúmlega vika 15. – 23. des.
- Bjarkey O Gunnarsdóttir

- Dec 23, 2025
- 3 min read

Það snjóaði seint í gærkveldi og var þess vegna bjartara um að litast eldsnemma í morgun þegar ég fór til vinnu.
Allskonar tölvupóstum svarað, heyrði svo í fyrrum deildarstjóra um nokkur mál. Alltaf gott að geta leitað til þeirra sem eiga mikla reynslu í farteskinu.
Útbjó svo gjafakort handa verðlaunahöfum í hreystikeppni grunnskólans sem þau fá afhent á litlu jólunum á fimmtudaginn.
Fundaði svo með fólkinu sem sér um börnin í frístund og lengdri viðveru þar sem við fórum yfir hvernig til hefur tekist í haust. Mikil þátttaka er hjá yngstu börnunum bæði í íþróttum og í frístund- og lengd sem er afskaplega gott að heyra.

Dreif mig svo í ísgerð - því engin eru jólin ef ekki er heimatilbúinn ís.
Þriðjudagurinn hófst á því að rifja upp og læra nýtt í skjalakerfinu.
Við höfum ekki farið varhluta af flensuskít hér í Fjallabyggð og fundi í dag hjá Tónskólanum frestað þess vegna.
Gerði svo gjaldskrárnar sem tilheyra mínu sviði klárar til birtingar á heimasíðu sveitarfélagsins.

Sat svo samráðsfund Sambandsins með Grunni í hádeginu. Þar var farið yfir
Aðalnámskrá grunnskóla. Auður Bára Ólafsdóttir og Brynhildur Sigurðardóttir frá MMS fóru yfir tilurð stuðningsefnis með aðalnámskrá grunnskóla, innihald þess og innleiðingaráætlun. Hér má sjá nýlega birta grein í Skólaþræðir: Stuðningsefni með aðalnámskrá grunnskóla: Leiðarvísir að faglegu skipulagi náms, kennslu og námsmats.
Nemendagrunnur – fulltrúar Sambandsins fóru yfir stöðuna.
Fórum svo yfir fundina sem verða í uppha
fi næsta árs en þar verður m.a. tekin fyrir Menntaflétta – námssamfélög í skóla- og frístundastarfi. Hér er líka áhugaverð skýrsla: Brúum bilið Skýrsla aðgerðahóps um brúun umönnunarbilsins.pdf og umonnunarbilid.pdf
Svo var komið að því að breyta áætlun skólarútunnar vegna litlu jólanna í skólanum og svo dagana fram til áramóta. Enda fer rútan á milli þá daga þrátt fyrir að skólastarfið sé ekki í gangi.
Nýtti miðvikudaginn dálítið í að undirbúa starfsáætlanir vegna nefnda fyrir næsta ár. Svo voru ýmsar ariseringar vegna Neon sem heldur jólaball fyrir eldri nemendur grunnskólans á fimmtudagskvöldið.
Fundur þríeykisins að vanda þar sem ýmis mál voru rædd og afgreidd.
Finnst dagarnir æða áfram og nóg að gera sem er gaman. Fimmtudagsmorguninn hóf ég á fundi með One system þar sem farið var yfir kerfistengd mál og skjalavistun. Næsta vegferð er að tengja grunnskólann í kerfið sem verður mikil breyting á geymslu gagna.
Lestur skýrslna og áfram unnið að undirbúningi starfsáætlana nefnda.

Gaman er að segja frá því að hljómsveitin Ástarpungarnir var valin í útnefningu markaðs- og menningarnefnd um bæjarlistamann/menn Fjallabyggðar og staðfest í bæjarstjórn á miðvikudag.
Skólamálin tóku svo restina af deginum.
Skaust svo á Dalvík þar sem Hófí ruglaði aðeins í kollinum á mér 😉 ja eða litaði og klippti.
Föstudagurinn í Ólafsfirði þar sem viðtöl vegna umsóknar um deildarstjóra voru tekin.
Síðan sat ég kynning frá Veltek um Phoniro „lyklakerfi“ sem er ætlað fólki sem sinnir þjónustu í heimahúsum eins og t.d. þrifum og heimahjúkrun. Mjög áhugavert þar sem hægt er að fylgjast með heimsóknum og ekkert lyklavesen þar sem þetta er opnað í gegnum síma.
Jódís Jana og Tristan Amor komu svo norður í dag og var afskaplega gott að hitta þau, knúsa og kyssa.
Bauð svo Helga mínum í SPA á Hvanndölum enda nauðsynlegt að mýkja hann upp eftir allt streðið undanfarið í Túngötunni og jólastússinu.
Laugardagurinn fór svo í að klára að skreyta og ganga frá svona að mestu. Jólatréð fer upp á Þorláksmessu að vanda og Jódís og Tristan sjá um að skreyta það.
Davíð kom svo með fjölskylduna á laugardagskvöldið.


Ljúfur sunnudagur og göngutúr með barnabörnin á stysta degi ársins og veður afskaplega fallegt. Ekki amalegt að geta notað 43 ára gamlan Silvercross vagninn frá föður til dóttur í þessu tilviki.
Mánudagurinn hófst á stuttum fundi vegna ráðningarmála. Vann svo í útfærslu á starfslýsingu vegna starfs deildarstjóra.
Náði svo að gera námskeið í Abler forritinu sem ég var nú nokkuð ánægð með.
Þar sem líður að áramótum gekk ég frá samþykki ýmissa reikninga.
Síðan var að setja í dagatal nýs árs áminningar m.a. um allskonar uppfærslur á ýmsum samningum.
Þá var komið að Þorláksmessu. Var í Ólafsfirði og skrifstofan opin til hádegis. Ég hafði Rás1 og jólakveðjurnar sem undirtóna dagsins enda ómissandi á þessum degin.
Morguninn fór í að „hreinsa borðið“ fyrir jólin og svara ýmsum erindum.

Í hádeginu fór ég ásamt syninum í skötuhlaðborð í Höllinni að vanda sem var algerlega frábært og óhætt að segja að ég hafi borðað yfir mig. Þá var komið að því að setja upp hangiketið frá Skarðaborg og fá alvöru jólailm í kotið.
Að þessu sögðu þá er þetta ár búið að vera mjög viðburðarríkt í mínu lífi og ég ótrúlega þakklát fyrir góða heilsu og að fá tækifæri til að takast á við fjölbreytt verkefni.
Ég er viss um að nýja árið verður ekki síður skemmtilegt og óska ég ykkur öllum gleðilegra jóla og kærleiksríks nýs árs.







Comments