top of page

29. des.-23. jan.

  • Writer: Bjarkey O Gunnarsdóttir
    Bjarkey O Gunnarsdóttir
  • 6 days ago
  • 5 min read

Langt að þessu sinni ákvað að taka saman mánuðinn. Lítið um vinnutengdar myndir en meira af hinu dásamlega veðri og umhverfi í Fjallabyggð.


Nú var komið að því að hreinsa upp fyrir áramótin það sem þurfti. Svara póstum og símtölum, samþykkja laun og reikninga og þá gat nú nýja árið gengið í garð.

Ég skellti mér svo í 10. km. gamlársdagshlaup.







Tók svo við björgunarsveitarmanninnum fyrir soninn sem ákvað að fyrirtækið hans Kælikerfi myndi styrkja Björgunarsveitina Tind í Ólafsfirði.


Nýtt ár og jólaljósin skarta sínu fegursta. Ennþá snjólaust þennan fyrsta vinnudag 2. janúar.

Dagurinn fór í að svara tölvupóstum sem útaf stóðu og komnir eru. Undirbúningur fyrir komandi viku.


Mánudagur og fyrsti fundur dagsins snemma þar sem ég réði nýjan deildarstjóra fræðslu- og frístundamála, Ásdísi Sigurðardóttur. Hún byrjar 1. mars og verður gott að fá hana til starfa enda mörgum hnútum kunnug í Fjallabyggð.

Síðan var fundur um nemendagrunn sem verið er að vinna að og innleiða í grunnskóla landsins. Örfundur í markaðs- og menningarnefnd. Þá tók við fundur um uppfærslu vegna Navision sem sögð er afar einföld en sjáum nú til með það. Ég er nú enn að læra á þetta gamla og útlitið á þessu nýja er sannarlega allt öðru vísi.


Örfundur með fulltrúa barnaverndar á Akureyri var svo næstur á dagskrá.

Að vinnudegi loknum hélt ég ásamt nokkrum konum í Ólafsfirði á fund Soroptimista á Tröllaskaga sem að þessu sinni var haldinn á Dalvík.


Þriðjudaginn nýtti ég í allskonar m.a. samskipti vegna söngkeppninar NorðurOrg. Ég var í samskiptum vegna „smíði“ á reiknivél vegna leikskólagjalda og svo var eins og gengur og gerist eitt og annað sem féll til í amstri dagsins.

Skaust til læknis og lét sprauta mig út og suður svo þetta gamla stell nái að funkera eitthvað áfram.


Á miðvikudeginum sýslaði ég í frístundastyrk og fyrirspurnum þar að lútandi, undirbjó fund TÁT sem var frestað vegna veikinda í desember.


Starfsmannafundur var í hádeginu þar sem bæjarstjóri fór yfir helstu niðurstöður fyrra árs og fyrirhugaðar framkvæmdir og annað 2026. Gott og gagnlegt að setjast öll niður og fara yfir málin.

Lauk við að undirbúa og boða fund í Stýrihóp um heilsueflandi samfélag á fimmtudeginum. Hitti svo forstjóra HSN í Ólafsfirði og fór yfir ýmis mál.


Fundaði svo með fjölskylduráðgjafa og stoðteymi grunnskólans um starfið framundan. Lauk svo vinnudeginum með félögum mínum á fundi í TÁT.


Flaug suður um kvöldið og vann fram að hádegi á föstudegi en fór svo í jarðaför eftir hádegi. Þar kvaddi ég þann ljúfa mann, Hanna, sem var mágur pabba. Falleg og ljúf athöfn og gott að sjá ættingja sem því miður ég sé mörg alltof sjaldan.


Bauð svo vinum í mat um helgina og Helgi minn hóf að taka niður jólaskrautið við lítinn fögnuð frá mér. En þetta er mikið verk og þarf að gera í áföngum.


Mánudaginn 12. janúar var ég í sambandi við fulltrúa í ungmennaráði vegna fundar sem er á föstudaginn en þau ætla að fara yfir fundi sem þau sóttu í desember.

Fundaði svo með forstöðumanni íþróttamiðstöðvarinnar ásamt bæjarstjóra. Að því búnu var fundur vegna frístundamála.

Áfram unnið við verk tengdu reiknivél leikskólans.

Smá sprikl í Hlíð að loknum vinnudegi.


Á þriðjudeginum kláraði ég undirbúning fyrir velferðarnefndarfund og sendi út. Sat svo fund VMST – fjölmenningardeildar sem var mjög áhugaverður. Við fengum kynningu á leiðum til að læra íslensku sem mín ágæta vinkona Halla Signý Kristjánsdóttir, verkefnastjóri á Ísafirði fór yfir og heitir Gefum íslensku séns. Afar metnaðarfullt og margt hægt að taka með sér.


Jón Gunnar Þórðarson, forstjóri Bara tala, kynnti stafræna íslenskukennarann og appið Bara tala. Að lokum var kynning frá Språkkraft samtökunum í Svíþjóð þar sem farið var yfir þróun þjónustunnar RUV ORÐ eitthvað sem ég þarf að skoða vel.

Síðan var fundur með starfsfólki SSNE og starfsfólki ungmennaráða um stöðuna og verkefnin framundan.


Á miðvikudagsmorgun hitti ég svo skólastjóra og skrifstofustjóra grunnskólans þar sem við fórum yfir frístundamál m.a. vegna óveðurs og fleira.

Við þríeykið tókum svo langan fund í ýmis mál og lögðum drög af vinnudegi okkar.

Farsældarráð SSNE fundaði svo seinnipartinn þar sem við fengum flotta fulltrúa ungmennaráðs Akureyrarbæjar sem kynntu starf ráðsins.


Fanney Jónsdóttir teymisstjóri farsældar barna hjá velferðarsviði Akureyrarbæjar var með erindið: Samþættingarteymi velferðarsviðs Akureyrarbæjar

Verkefnastjóri fór yfir undirbúning ungmennaþings SSNE og svo voru ýmis önnur mál.

Að vinnu lokinni sprikl í Hlíð sem líklega skilur eftir sig einhverja stengi.



Fimmtudagurinn hófst á fundi með leikskólastjóra um hin ýmsu mál. Elstu börnin á Leikhólum í Ólafsfirði eru að flytja tímabundið í húsnæði UÍF þar sem reisa á viðbyggingu og bæta aðstöðuna. Þá þurfti nú að heyra í heilbrigðiseftirlitinu sem taka þarf aðstæður út og eins þrifagengið því allt þarf jú að vera hreint og fínt.

Velferðarnefndarfundur var svo í Ólafsfirði í lok dag.



Skrifstofan í Ólafsfirði á föstudeginum og þar fundaði ég með ungmennaráði og stjórn Grunns þar á eftir. Nokkur innlit voru og eitt og annað sem þurfti að ræða og leysa.

Helgin fór að mestu í súrdeigsbakstursnámskeið yfir netið en bakarameistarinn býr í Danmörku. Margt fróðlegt lærði ég en ekki get ég nú sagt að afraksturinn hafi verið til fyrirmyndar en æfingin skapar meistarann hefur einhverntímann verið sagt. Ég held áfram að æfa mig.

Skaust á gönguskíði á sunnudaginn og náði að skottast eina 10 km. Það er eina rennslið sem ég næ áður en ég held til skíðaiðkunar í Austurríki.


Mánudagurinn 19. janúar hófst á fundi með skólastjóra grunnskólans og bæjarstjóra. Dagurinn fór svo í margskonar verkefni innan húss og utan.


Á þriðjudeginum hitti ég svo Karen þar sem við fórum yfir eitt og annað varðandi NorðurOrg en þar eru ótal mörg verkefni sem þarf að vinna að og margar hendur að koma að.

Hitti svo fulltrúa Veraldarvina en framundan er ungmennavika í Fjallabyggð þar sem ungt fólk frá Belgíu og Spáni kemur og heimsækir okkur og voru þeir að óska eftir þátttöku ungs fólks í Fjallabyggð. Áhugavert verkefni.


Síðan var samráðsfundur með Grunni og Sambandinu þar sem fjallað var m.a. um Samræmt reiknilíkan fyrir leik- og grunnskóla og niðurstöður könnunar sem send var til sveitarfélaga þar sem kannað var um vilja til þátttöku í slíku samstarfi.  

Rætt var um Karellen forrit sem leikskólar hafa notað og er að hætta. Bráðlega verður líka send út könnun á frístunda- og ungmennastarfi sem við vorum hvött til að taka þátt í.


Á miðvikudaginn fundaði ég með samráðshóp LEB og Sambandsins vegna öldungaráða og eftir hádegi héldum við þríeykið vinnufund. Í lok dags hitti ég svo ungt fólk sem leggur stund á íþróttafræði í HÍ og ræddi við þau um heilsueflandi samfélag. Gott og gagnlegt spjall.

Fimmtudagurinn var samsettur af ýmiskonar verkefnum og ég flaug svo í borgina þar sem ég kláraði vinnudaginn.


Fór svo í norðurljósa skoðun sem leiðsögunemi og var afskaplega gaman að sjá upplifun erlendu ferðamannanna yfir herlegheitunum.

Í dag föstudag sat ég áhugavert málþing, ætlað sveitarstjórnarfólki og starfsfólki sveitarfélaga, þar sem markmiðið var að skapa vettvang fyrir opið samtal um framtíðarsýn, stefnumótun og þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir í þjónustu og réttindum fatlaðs fólks. Mörg áhugaverð erindi sem sveitarstjórnarstigið verður að taka utanum með ríkisvaldinu. Hitti líka nýja og gamla kollega sem gott var að eiga spjall við um verkefnin sem við erum að glíma við.

Mér skilst að það sé handbolti á eftir 😉eitthvað til að hækka blóðþrýstinginn líklega.


Á morgun ætlum við hjónin að skreppa til Seefeld í Austurríki og nýta gönguskíðin þar sem engan er hér snjóinn að finna á skerinu.


Annars – njótið helgarinnar.





 
 
 

Comments


  • facebook
  • twitter
  • linkedin

©2023 BY BJARKEY OLSEN

bottom of page