Í alvöru íslenskt
- Bjarkey O Gunnarsdóttir

- Nov 28, 2023
- 2 min read

Íslenskt grænmeti er iðulega merkt svo ekki sé um villst að það óx í íslenskri storð. Auk þess tel ég almenning átta sig á hvað vex hér á landi og hvað ekki, við vitum að epli, appelsínur og Ora-baunir eru innfluttar vörur. Mörkin í kjötvöru eru óljósari. Við framleiðum hér á landi: lamb, naut, kjúkling, svín og jafnvel kalkún.
Kalkúnn í sneiðum, framleiddur úr 1. flokks íslensku grísakjöti, upprunaland: Pólland.
Með íslensku fánaröndina hliðarsetta á pakkningunni. Þetta bar fyrir augu neytenda nokkurs í matvöruverslun hér á landi fyrir skemmstu og rataði myndin á veraldarvefinn. Hér hefur augljóslega eitthvað misfarist í prentun merkimiðans og atvikið að einhverju leyti spaugilegt. En merkingar eru alvöru mál.
Ég hef áður fjallað um neytendamál, bæði í ræðu og riti og er þeirrar skoðunar að notkun fánalita íslenska fánans við merkingar á erlendum afurðum sem pakkað er af innlendum framleiðendum, ætti að vera með öllu óheimil. Það er of algengt að framleiðendur freistist til þess að nota fánalitina með þeim hætti til að selja vöru sína. Það er hluti af heilnæmi íslenskra matvæla að eftirlit, framleiðsla og hreinleiki afurða sé í fyrirrúmi. Það er engum til góðs að neytendur þurfi að lúslesa pakkningar til að sjá hvar varan er framleidd, sér í lagi ef á henni er íslenskur fáni. Við viljum geta treyst því að fáninn okkar hafi einhverja merkingu en sé ekki ódýrt sölutrix.
Á vef „Íslenskt staðfest“ er að finna tölur úr könnun Gallup fyrir Icelandic lamb frá 2021. Þar kemur fram með leyfi forseta - að 90% svarenda töldu upprunamerkingar mikilvægar, 70% sögðust óánægð með að erlendar kjötafurðir séu seldar undir íslenskum vörumerkjum. 63% vildu að innlendar matvörur væru upprunamerktar og ríflega 80% kjósa íslenskar vörur í verslunum, sé þess kostur! Bændasamtök Íslands hafa svarað þessu kalli og reka merkið „Íslenskt staðfest“ sem byggir á áratugareynslu af notkun sambærilegra merkja á Norðurlöndunum. Eftir sem áður kemur það góða starf ekki í veg fyrir misvísandi merkingar þó það sannarlega auðveldi neytendum að versla innlenda matvöru.
Höfum augun opin þegar við verslum og styðjum íslenska framleiðslu og íslenska bændur.






Comments