Vikubók sviðsstjórans 27. okt. – 2. nóv.
- Bjarkey O Gunnarsdóttir

- Nov 2
- 3 min read
Vikan einkenndist af allskonar veðurfari hér norðan heiða eins og víðast hvar um landið.
Mánudagurinn hófst með fundi bæjarstjóra og skólastjóra þar sem farið var yfir málin vegna komandi fjárhagsáætlunar. Þar á eftir funduðum við Hjörtur með bæjarstjóra í sama tilgangi.
Símtöl og skrifstofuvinna fram að hádegi en þá fundaði ný stjórn Grunns, félags stjórnenda á fræðslu- og frístundasviðum sveitarfélaga hvar ég var kjörin formaður. Fátt sem maður lætur ekki plata sig út í. En við sammæltumst um það að deila ábyrgð og verkum.
Klukkan fjögur var svo komið að fundi í fræðslu- og frístundanefnd.
Á þriðjudaginn var ég að undirbúa mig undir vinnustofu heilsueflandi samfélags sem átti að fara fram á fimmtudegi og fram til hádegis á föstudegi. Honum var svo aflýst vegna veðurs þar sem von var á fulltrúum úr öllum landshornum. Líklega sem betur fer því ekkert var nú ferðaveðrið á föstudeginum og konan hefði setið föst í Reykjavík með öllum hinum.
En ég sat afskaplega áhugaverðan fund sem tengiliður sveitarfélagsins vegna fjölmenningar, jafnréttis-og inngildingarmála. Magnea Marinósdóttir, stjórnmálafræðingur, sem hlaut styrk frá Þróunarsjóði innflytjendamála til að framkvæma verkefni sem lýtur að lýðræðisþátttöku innflytjenda í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga fór yfir verkefnið.
Samband íslenska sveitarfélaga er eins konar bakhjarl verkefnisins í samræmi við stefnumörkun sína þar sem það ætlar að beita sér fyrir því að auka kosningaþáttöku íbúa af erlendum uppruna og reyna að ná líka til unga fólksins í gegnum sveitarfélögin. Ég fyllti út könnun fyrir fundinn þar sem verið er að kortleggja stöðu mála í sveitarfélögunum. Magnea býður svo sveitarfélögum uppá vinnustofur með fólkinu af erlendum uppruna sem búa í sveitarfélaginu. Næsta verkefni hjá mér er að kanna áhuga á þessu hjá fólkinu sem hér býr af erlendum uppruna og finna leiðir til þess að ná til þeirra.
Í lok dags funduðum við svo í skólanefnd Tónskólans á Tröllaskaga.
Við bæjarstjóri hittum Kristínu, leikskólastjóra, í bítið á miðvikudagsmorgun og fórum yfir fjárhagsáætlunarmál.
Ég fór svo í að undirbúa fund ungmennaráðs sem var haldinn klukkan eitt í Ólafsfirði. Frábær hópur ungs fólks sem ég vona svo sannarlega að láti til sín taka í störfum sínum fyrir unga fólkið í Fjallabyggð. Framundan er ungmennaþing í Reykjavík 5. desember sem nokkur þeirra sækja fyrir hönd ráðsins.
Við funduðum svo í stjórn Grunns með gömlu stjórninni en þau ætla að „halda í hendina“ á okkur svona fyrstu skrefin þar sem stjórnin endurnýjaðist alveg. Samþykktum sem þarf að breyta svo þekkingin hverfi ekki heldur flæði á milli.


Fimmtudagurinn fór í stórt og smátt sem hafði beðið eins og gengur og gerist. Skaust þó til Akureyrar þar sem sveitarfélög innan SSNE ásamt SAk, HSN, Lögreglunnar á Norðurlandi eystra, MA, VMA, MTR, FSH, FL og Svæðisstöðvar íþróttahéraða UMFÍ og ÍSÍ komu saman og undirrituðu stofnun Farsældarráðs Norðurlands. Ráðherra mennta- og barnamála ávarpaði fundinn. Afskaplega góð stund og frábær tónlistarflutningur toppaði þessa stund alveg.

Fór svo með góðri vinkonu sem er í FKA til Akureyrar á kynningu í River - útrás frá Egilsstöðum og svo skruppum við í Jysk þar sem Rúnar Eff var að spila.
Föstudagurinn var frekar hryssingslegur veðurfarlega séð en meðan rigningin og rokið barði gluggana var allt samt einhvern veginn rólegra. Með góðan tebolla náði ég að vinna upp verkefni sem höfðu beðið. Lét svo verða af því að heimsækja lækni eftir 10 daga hósta – enda bóndinn flúinn svítuna þar sem konan hélt fyrir honum vöku með stanslausum hóstakviðum og ekki er það nú ásættanlegt.


Laugardagsins naut ég svo með kvenfélagskonum hér í Ólafsfirði en við fengum til okkar kvenfélagskonur frá Hrísey og Árskógssandi. Fórum með þær í Hvanndali, til Stínu bæjarlistamanns, í Pálshús og kíktum á hrollinn í Tjarnarborg enduðum svo í Brimsölum þar sem við áttum góða stund saman.

Sunnudagurinn hefur liðið í rólegheitum – eða þannig og áfram ber rigningin á okkur en ég setti saman hugvekju sem ég flutti í kvöld í kirkjunni á allra heilagra messu. Afskaplega notaleg stund sem endaði á því að fara í kirkjugarðinn og tendra ljós hjá ástvinum okkar.
Framundan er góð vika - er alveg sannfærð um það.






Comments