Vikubók sviðsstjórans 12. - 17. október
- Bjarkey O Gunnarsdóttir

- Oct 17
- 2 min read
Vikan hefur einkennst af dásamlegu haustveðri eins og sjá má á myndunum og sem vonandi léttir allra lund.
Á sunnudaginn var ég með kynningu fyrir félag eldri borgara á Siglufirði í Skálarhlíð um mitt starf og svo áherslu á það sem tilheyrir sérstaklega eldra fólki. Fínn fundur og ágætlega mætt.

Mánudagurinn hófst á mánaðarlegum fundi með bæjarstjóra og skólastjóra þar sem við fórum yfir hin ýmsu mál.
Eftir hádegi fundaði ég svo með Karen, umsjónarmanni Neon, um starfið framundan og ýmis praktísk úrlausnarefni.
Á þriðjudagsmorgun fundaði ég, ásamt Helgu, með teymi vegna verkefnisins Heillaspor sem ég á eftir að segja betur frá síðar.
Grunnur eru samtök fræðslustjóra og við tókum teams fund í hádeginu. Mánaðalegur fundur fjölmenningardeildar VMST var svo í beinu framhaldi.
Restin af deginum fór svo í að vinna launaáætlun fyrir Hornbrekku með Sunnu. Þá eru launaáætlanirnar nokkuð klárar.

Á miðvikudaginn sinnti ég ýmsum erindum á skrifstofunni og síðan funduðum við þríeykið á okkar hefðbundna tíma og fórum yfir helstu mál félagsmáladeildar.
Ég skaust svo yfir í grunnskólann og fylgdist með starfsmönnum Alþingis kynna fyrir 10. bekkingum Lýðræðislestina/Skólaþing og fannst það mjög skemmtilegt. Hefði gjarnan viljað vera allan tímann en hafði því miður ekki tök á því. Frábært framtak hjá Alþingi.

Ég hitti svo fólk frá Heilsu-og sálfræðiþjónustunni á Akureyri sem var að kynna mér starfsemina sem hefur á að skipa fjölbreyttri flóru sérfræðinga.
Svo þurfti að klára eitt og annað þennan daginn.
Fimmtudagurinn fór í ýmis praktísk mál m.a. undirbúning fyrir fyrsta fund ungmennaráðs ásamt því að fara í gegnum málaflokkana vegna fjárhagsáætlunarvinnunnar sem er í fullum gangi.
Í dag er ég svo á starfsstöðinni í Ólafsfirði og hyggst hafa þann háttinn á að vera með fasta viðveru á föstudögum. Ungmennaráðsfundurinn sem átti að vera féll niður þar sem ólympíuhlaup var hjá grunnskólanemum á fyrirhuguðum fundartíma. Reynum aftur næsta föstudag.

Eins og alla hina dagana þá var vikan skemmtileg og nú ætla ég að skella mér í borgina ásamt mínum kæra.
Svona til gamans þar sem ég hef málefni er varðar heilsueflandi samfélag á minni könnu þá er hér fróðleikur sem vert er að kynna sér.
Gott og einfalt er nýr matarvefur sem gerir hollt mataræði aðgengilegt, einfalt og skemmtilegt fyrir alla – bæði reynda og óreynda í eldhúsinu. En vefurinn gæti átt mikið erindi í heilsueflandi starf embættisins.
Gott og einfalt er samstarf SÍBS og Krabbameinsfélags Íslands, unnið í samvinnu við embætti landlæknis. Verkefnið er rekið án hagnaðarsjónarmiða í þágu almennings.
Á gottogeinfalt.is er að finna:
Einfaldar uppskriftir sem taka mið af opinberum ráðleggingum embættis landlæknis um mataræði
Fjölbreytta leitarmöguleika, þar sem m.a. má útiloka algenga ofnæmisvalda
Vikumatseðla sem hjálpa til við skipulagið
Innkaupalista sem uppfærist sjálfkrafa eftir fjölda skammta og er tilbúinn til að deila
Skýrar eldunarleiðbeiningar sem henta jafnvel óreyndum í eldhúsinu
Fræðslu og ráð um hollustu, sparnað, matarsóun og margt fleira
Ef þið viljið fylgja þeim á samfélagsmiðlum þá eru hér tenglar.






Comments