Vikan 12. - 16. febrúar
- Bjarkey O Gunnarsdóttir

- Feb 20, 2024
- 2 min read
Svona til gamans þá er hér yfirlit yfir síðustu viku hjá mér í afar grófum dráttum.
Mánudagurinn hófst á því að keyra til Akureyrar í talsverðri snjókomu og svo flogið til Reykjavíkur og beint á fund velferðarnefndar. Þar kom félags- og vinnumarkaðsráðherra á fund nefndarinnar ásamt formanni stýrihóps og forstjóra TR og kynntu fyrirhugað frumvarp um breytingar á almannatryggingarkerfinu, þ.e. þeim hluta sem snýr að öryrkjum.
Síðan var þingflokksfundur á hefðbundnum tíma frá kl. 13-15 og svo þingfundur. Klukkan sex hitti ég bændur sem voru á deildarfundum búgreina og átti ég gott samtal ásamt nokkrum félögum mínum.

Þriðjudagurinn hófst á fundi í atvinnuveganefnd þar sem við fengum heimsókn umhverfis, orku og loftslagsráðuneytis til að fjalla um raforkulögin. Forstjóri Orkustofnunar kom svo í kjölfarið og ræddum við stöðuna á Reykjanesi.
Þar næst hélt ég á fund sem bar yfirskriftina „Getur Austurland orðið miðstöð orkuskipta á Íslandi?“
Þar næst gúffaði ég í mig saltkjöti og baunum á mettíma í mötuneyti þingsins og hélt á málþing í Þjóðminjasafninu sem hafði yfirskriftina

„Lýðheilsa og áfengi-hver vilja kúvenda stefnunni og bjóða hættunni heim?“ Mörg mjög góð erindi og ég var þar í hópi þingmanna með örerindi.
Þar næst átti ég örfund í þinginu vegna máls í velferðarnefnd og þá var komið að lokafundi dagsins sem var í fjármálaráðuneytinu vegna málefna Grindvíkinga.
Miðvikudagurinn var nefndardagur í þinginu og byrjaði með fundi í velferðarnefnd þar sem við tókum á móti gestum vegna framkvæmdaáætlunar í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2024-2027.
Eftir hádegi var svo þingflokksfundur frá kl. 13-15 að vanda.
Nýtti svo lausan tíma til að svara tölvupóstum og símtölum ásamt því að halda áfram að skipuleggja kjördæmavikuna sem verður í lok mánaðarins.

Að því búnu sat ég Málþing um hindranir og tækifæri í framleiðslu grænkerafæðis á Íslandi sem stóð fram yfir kvöldmat.
Fimmtudagurinn hófst með fundi í atvinnuveganefnd og svo var þingfundur eftir hádegi þar sem rætt var mál er varðar kaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík.
Sinnti tölvupósti og símtölum á föstudagsmorgun og flaug svo heim um hádegisbilið. Las yfir nefndarálit og skipulagði fundi næstu viku þegar heim var komið.






Comments