Verðum að taka utan um vandann
- Bjarkey O Gunnarsdóttir

- Apr 26, 2023
- 2 min read

Í sjónvarpsfréttum Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi var fjallað um Ópíóðafaraldurinn, faraldur lyfjatengdra andláta ungmenna sem færst hefur í aukana hér á landi sem og annarsstaðar í heiminum á síðustu árum.
Staðan er sú að ópíóðafíkn verður útbreiddari með hverju árinu sem líður samkvæmt tölum Landlæknisembættisins. Embættið hefur þó ekki gefið út staðfestar tölur um fjölda þeirra sem hafa látist vegna lyfjafíknar á síðustu mánuðum. Gögn frá sjúkrahúsinu Vogi sýna þó að 35 einstaklingar undir 50 ára sem hafi nýtt þau úrræði sem sjúkrahúsið bíður uppá hafi látist það sem af er ári og virðist sem fjöldi dauðsfalla sé enn að aukast ofaná þá aukningu sem við höfum séð undanfarin ár.
Vegna fjölda andláta og umræðunnar í samfélaginu hafa fleiri leitað í skaðaminnkandi úrræðið Frú Ragnheiði til að afla sér þekkingar um skammtastærðir, áhrif þeirra efna sem þau eru að nota og upplýsingar t.d. um notkun Naloxon neyðarúða sem komið getur í veg fyrir ofskömmtun.
Það er engin nýlunda að nota ópíóða sem fíkniefni en sérfræðingar hér á landi hafa bent á samhliða aukinni neyslu þessara lyfja hafi eðli hennar breyst. Ópíóðar séu í meira mæli en áður fyrsta fíkniefni sem einstaklingur notar. Áður fyrr hafi neysla ópíóða verið einkennandi fyrir fólk sem hafi verið í langvarandi, alvarlegri neyslu og notað slík efni um æð.
Þetta er grafalvarlegur vandi sem við stöndum frammi fyrir sem samfélag. Málaflokkurinn er stór og er í senn velferðar, félags- og heilbrigðismál. Það er því ljóst að til þess að takast á við hann þarf fjöldi aðila að koma saman. Það er engin ein lausn. Við þurfum forvarnir gegn sýkingarhættu og leiðbeiningar eins og veittar eru í skaðaminnkandi úrræðum Rauða Krossins, við þurfum gagnreyndar aðferðir til að hjálpa fólki sem vill losna undan fíkninni, við þurfum að tryggja eftirfylgni sjúklinga því að áhrifin á notendur eru oft langvarandi, flókin og snerta bæði andlega og líkamlega heilsu. Þá eru ótalin þau verulegu félagslegu áhrif sem þau kunna að hafa í för með sér.
Ég tek undir með hæstvirtum heilbrigðisráðherra við verðum að samþætta þjónustu við fólk með fíknisjúkdóma og taka utan um alvarleika málsins.
Flutt í störfum þingsins






Comments