Umræða um fjölmiðla
- Bjarkey O Gunnarsdóttir

- Mar 30, 2022
- 2 min read

Samfélagslegt hlutverk fjölmiðla er afar mikilvægt í öllu samhengi. Í kappi samtímans um athygli allra er mikilvægi traustra og áreiðanlegra upplýsinga meira en nokkru sinni fyrr. Óháðir fjölmiðlar gegna þar lykilhlutverki sem bæði heldur okkur hér á Alþingi við efnið og beinir sjónum okkar að málefnum líðandi stundar.
Rekstarumhverfi sjálfstæðra fjölmiðla á Íslandi hefur lengi verið erfitt eins og okkur flestum er kunnugt. Markaðurinn er ekki stór, við erum fá og undanfarna áratugi hafa vefmiðlar hvaðanæva að orðið aðgengilegir umheiminum öllum. Þessi megin breyta hefur líka áhrif á tekjumöguleika fjölmiðla þar sem auglýsingar á netmiðlum eru í æ-meira mæli á höndum alþjóðlegra stórfyrirtækja og mikilvægt að skattleggja þá eins og hina íslensku.
Eins og hér hefur verið rætt voru styrkir til einkarekinna fjölmiðla lögfestir á síðasta kjörtímabili með það fyrir sjónum að jafna stöðu þeirra. Það er deginum ljósara í mínum huga að fjölmiðlar á Íslandi reki sig ekki án ríkisframlags og ekki að mínu mati afar mikilvægt að styðja við staðbundna héraðsfjölmiðla enda sem hafa í gegnum tíðina verið vettvangur skoðanaskipa og í rannsókn sagnfræðingsins dr. Hrafnkels Lárussonar um svæðisbundna fjölmiðlun á Austurlandi kemur fram mikilvægi lýðræðisumræðunnar og þegar héraðsmiðlarnir fóru að veikjast á síðasta áratug aldarinnar sem leið hafi það strax haft áhrif á staðbundna umræðu um ýmis mál er snerta líf íbúa hinna smærri byggða.
Að því sögðu tel ég mikilvægt að úthlutun stuðnings úr ríkissjóði fari fram á faglegum grundvelli til að tryggja æskilega fjarlægð á milli stjórnvalda og umræðunnar, til að tryggja að allir séu undir vökulu auga fjölmiðla, það er gagnrýnni, óháðri umfjöllun í vil, það er okkur öllum í vil.
Þá er það ekki síður mikilvægt að stjórnvöld efli umgjörð og starfsumhverfi fjölmiðla með löggjöf og greiði þannig fyrir lýðræðislegu hlutverki þeirra, þetta var t.a.m. gert með bættum upplýsingalögum og breyttri umgjörð um lögbann á fjölmiðla umfjöllun, fjölmiðlum og öllum almenningi til hagsbóta.
Þeirri vegferð er hvergi nærri lokið og nýleg dæmi sýna hversu mikilvægt er að við stöndum þá vakt.
Sérstök umræða í þinginu 30. mars.






Comments