Sérstök umræða um almannavarnir var í þinginu
- Bjarkey O Gunnarsdóttir

- Feb 11, 2024
- 2 min read
Frú forseti.

Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Gísla Rafn Ólafssyni fyrir að vekja máls á þessum mikilvæga málaflokki og sömuleiðis þakka ég hæstv. forsætisráðherra fyrir greinargóð svör.
Ég get tekið undir þau sjónarmið sem hér hafa komið fram og varða fjármögnun og starfsemi almannavarna með tilliti til sjálfboðaliða og þess óeigingjarna starfs sem þar fer fram. Það er alveg ljóst, eins og hér hefur komið fram, að þessu fyrirkomulagi, sér í lagi þegar litið er til síðustu ára sem hafa einkennst af viðvarandi almannavarnaástandi eins og öllum hér er kunnugt um, þurfum við að breyta.
Inn í þessa umræðu um formgerð almannavarna vil ég draga rannsóknarnefnd almannavarna, nefnd sem lögð var af fyrir nokkrum árum og hefur leitt til þess að ráðherra sem ber ábyrgð á málaflokknum ásamt almannavörnum sjálfum fer með innra og ytra eftirlit. Nefndinni var aldrei með góðu móti gert mögulegt að uppfylla lagaskyldur sínar og sinna mikilvægu eftirliti.
Það er alveg ljóst að ákvarðanir um almannavarnaaðgerðir eru þýðingarmiklar fyrir almenning og atvinnulíf eins og við höfum kynnst undanfarin ár, hvort heldur er í heimsfaraldrinum, snjóflóðunum í Neskaupstað, aurflóðinu á Seyðisfirði og nú vegna hörmunganna sem eru í Grindavík. Slíkar ákvarðanir hverju sinni geta verið íþyngjandi og haft áhrif á fjölda þátta samfélagsins.
Markmið sjálfstæðrar rannsóknarnefndar almannavarna var einmitt að hafa augun á þessu, að draga fram hvað mætti betur fara í slíkri ákvarðanatöku og hvernig bæta mætti viðbrögð og aðgerðir til frambúðar. Það er mín afstaða að slík nefnd sé nauðsynleg og að ákvörðun um eftirlit, um rannsókn gerist sjálfkrafa eins og við sjáum hjá rannsóknarnefnd samgönguslysa en ekki að fólk sem lendir í hörmulegum atburðum þurfi jafnvel sjálft að kalla eftir óháðri rannsókn.
Dómsmálaráðherra er að endurskoða lögin og ég vona svo sannarlega að þetta verði tekið til endurskoðunar.
Við erum jú að sönnu lánsöm hér á landi að búa að öflugum almannavörnum. Hér höfum við á reiðum höndum mannauð sem er ekki sjálfsagður í því fámenni sem við búum við og ég tek undir með málshefjanda að að slíku sjálfboðastarfi þurfum við að hlúa almennilega sem og almannavörnum almennt.






Comments