top of page

Sveitarfélög í Covid - 19

  • Writer: Bjarkey O Gunnarsdóttir
    Bjarkey O Gunnarsdóttir
  • Nov 4, 2020
  • 2 min read

ree

Efnahagsleg áhrif af heimsfaraldri kórónuveirunnar hafa verið mikil og eiga eftir að verða enn meiri enda dýpsta efnahagslægð í langan tíma. Þrátt fyrir alla þá erfiðleika sem við er að glíma hefur ríkisstjórnin haft það sem leiðarstef að trúa á framtíðina og að þetta ástand sé tímabundið. Gert er ráð fyrir allt að 900 milljarða skuldsetningu til að koma okkur í gegnum þá efnahagslegu erfiðleika sem við blasa. En við verðum að muna að þessar skuldir eru teknar að láni frá framtíðinni, af börnunum okkar og barnabörnum. Þess vegna þurfum við að nýta hverja krónu vel.


Aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa haft mikið að segja fyrir stöðu sveitarfélaganna, til að mynda kom hlutabótaleiðin í veg fyrir að tekjur féllu jafn mikið og þær hefðu annars gert. Við erum með öflugt kerfi almannatrygginga. Þar hefur lenging tekjutengda tímabilsins mikið að segja. Fjölmargar fleiri aðgerðir hafa nýst svo sem hvatar fyrir fjárfestingum í fráveitum, átakið allir vinna, og svo framvegis.


Sveitarfélögin standa undir geysilega mikilvægri þjónustu við fólk á sama tíma og tekjur þeirra lækka vegna ástandsins. Þau standa misvel, það er alveg ljóst og ástandið kemur misilla við þau. Sum sveitarfélög áttu í erfiðleikum fyrir tíma Covid-19 og svo eru þau sem byggðu nánast alla sína afkomu af ferðaþjónustu og sáu tekjustofna hrynja nánast á einum degi. Ríkisstjórnin brást strax við gangvart þeim síðarnefndu með sérstöku framlagi. Það er hægt að halda langar ræður um hvers vegna staða sveitarfélaga er misjöfn, tekjustofnarnir, hvort þeim þarf að fjölga eða hvort þeir eru fullnýttir. Þá umræðu þarf að taka og verður farið í, samanber samkomulag ríkis og sveitarfélaga frá því í byrjun október.


Ég hef sömu nálgun á þessi mál og í öðrum, það þarf að taka tillit til aðstæðna. Hvernig það verður gert þarf að vera skýrt. Lánshæfismat þeirra er misjafnt og vaxtarkostnaður ólíkur. Það er varla ætlunin að ríkið taki aukalega lán fyrir öllu væntu tekjutapi sveitarfélaganna og öllum væntum útgjaldaaukningum. Það þarf nýta krónurnar sem best og það gerum við með því að horfa til aðstæðna í hverju tilfelli. Auk þess sem það er ekki gott að sveitarstjórnarstigið sé of háð ríkisvaldinu, enda er sjálfstæði sveitarfélaga afar mikilvægt. Það er ólíku saman að jafna, t.d. Skútustaðahreppi sem er mjög háður ferðaþjónustu og Garðabæ sem ekki nýtir alla tekjustofna til fulls. Okkar verkefni er að standa saman um leið og við nýtum sameiginlega sjóði okkar skynsamlega.

 
 
 

Comments


  • facebook
  • twitter
  • linkedin

©2023 BY BJARKEY OLSEN

bottom of page