top of page

Stuðningur á erfiðum tíma

  • Writer: Bjarkey O Gunnarsdóttir
    Bjarkey O Gunnarsdóttir
  • Jun 14, 2022
  • 2 min read

ree


Í gær birtist á vef Stjórnarráðsins skýrsla starfshóps um félags- og heilsufarslegar aðgerðir vegna áhrifa heimsfaraldurs á viðkvæma hópa. Þar segir, með leyfi forseta:

„Í skýrslu starfshópsins eru settar fram tillögur að sértækum aðgerðum sem hafa að markmiði að draga úr neikvæðum langtímaáhrifum faraldursins á viðkvæma hópa í íslensku samfélagi.“


Heimsfaraldurinn, sem er í það minnsta nú um stundir í baksýnisspeglinum, snerti okkur öll á mismunandi hátt. Ég segi fyrir mitt leyti að ég hafði ekki gert mér fullkomlega grein fyrir því hversu mikil áhrif þessi faraldur hafði á mikilvæg félagsleg tengsl. Þetta segi ég, ófötluð forréttindakona, sem hafði það með besta móti. Það má því rétt gera sér í hugarlund þau félagslegu áhrif sem heimsfaraldurinn hafði á þau sem eru í bágri félagslegri stöðu.


Aðgerðirnar eru fjármagnaðar með viðbótarfjármagni á yfirstandandi ári og snerta á fjölmörgum þáttum samfélagsins. Þar má t.d. nefna stuðning við félagsstarf aldraðra, félagsstarf fullorðins fatlaðs fólks og viðkvæmra hópa með það að markmiði að sporna við einmanaleika og félagslegri einangrun þeirra og nema aðgerðirnar um 300 millj. kr. til þessara málaflokka. Einnig er lögð mikil áhersla á geðheilbrigðismálin enda eftir því kallað. Lögð er áhersla á bætta heilsu og bætt geðheilbrigði ungmenna, bætta þjónustu á BUGL og BUGL-teymanna sem og þriðja stigs geðheilbrigðisþjónustu fyrir 18 ára og eldri. Einnig eru settir fjármunir til að stytta biðlista fyrir börn og fjölskyldur þeirra, m.a. hjá Ráðgjafar- og greiningarstöð.


Fjármunir eru settir í forvarnir í skólum, sem ég tel mikilvægt, og sérstök sumarúrræði eru í boði fyrir börn í viðkvæmri stöðu. Þá er tekið á kynferðis- og heimilisofbeldi og miða þær aðgerðir „að bættu aðgengi þolenda og gerenda að viðeigandi þjónustu“.


Þetta eru aðeins nokkrar þeirra aðgerða sem ráðist verður í bæði á yfirstandandi ári og því næsta, en alls nema tillögurnar um 750 millj. kr. á yfirstandandi ári og 1 milljarði á því næsta. Bæði innlendar og erlendar rannsóknir hafa sýnt að heimsfaraldurinn hafði umtalsverð félagsleg áhrif. Það er því ljóst að þessar aðgerðir eru þarfar og nauðsynlegar.


Í störfum þingsins í dag.

 
 
 

Comments


  • facebook
  • twitter
  • linkedin

©2023 BY BJARKEY OLSEN

bottom of page