Spennandi tímar framundan í landbúnaðinum
- Bjarkey O Gunnarsdóttir 
- Mar 30, 2023
- 2 min read

Ljóst er að á komandi árum og áratugum munu verða miklar og fjölþættar breytingar í landbúnaði hér á landi. Mikilvægt er að í allri þeirri umræðu sem framundan er og í tengslum við þær ákvarðanir sem teknar verða, gleymist ekki mikilvægi þess sem nú er verið að gera vel og verður á komandi árum áfram hluti af grundvelli matvælahluta landbúnaðarins.
Stærsta áskorunin er að aðlaga landbúnaðinn að framtíðarsýn vísindamanna á þróunina í loftslagsmálum. Víða um heim er verið að máta möguleika á margskonar aðferðum til að ná loftslagsmarkmiðum með breytingum á landbúnaðinum. Þar má nefna sem dæmi að skera landbúnaðarframleiðslu viðkomandi landa verulega niður og þannig velta vandanum eitthvert annað en hvert veit enginn en fólk þarf áfram mat og einhversstaðar verður að framleiða hann. Í sumum löndum er verið að ræða umtalsverðar loftslagsálögur á sumar tegundir matvælaframleiðslu. Þær munu væntanlega, ef af verður, bæði leiða til minnkandi framleiðslu og hækkandi vöruverðs. Fram hafa komið tillögur um að hætta eða minnka verulega kjötframleiðslu, einkum af jórturdýrum, og færa neysluna sem mest í grænmeti og aðra loftslagsvænni framleiðslu. Þessi umræða á sér einnig stað varðandi mjólkurframleiðsluna. Mikilvægt er að við höfum allar staðreyndir undir þegar talað er í þessar veru og útreikninga sem sýna hvernig þetta á að gerast á þeim hraða sem um er rætt.
Hér á landi eru mun fleiri möguleikar til að mæta kröfunni um loftslagsvænni landbúnað en í mörgum öðrum löndum. Þeir möguleikar grundvallast einkum á nokkrum staðreyndum um aðstæður á Íslandi. Tiltölulega lítill hluti landsins, mun minni en í mörgum löndum, er nú bundinn til landbúnaðarframleiðslu. Það er því umtalsvert svigrúm til að vinna kröftuglega að loftslagsbindandi verkefnum sem byggja á landnotkun. Þar er auðvitað fyrst og fremst um að ræða skógrækt og landgræðslu. Ekki má gleyma endurheimt votlendis í þessu samhengi. Mjög margir bændur hafa yfir að ráða miklu landi sem í mörgum tilvikum er ekkert eða lítið verið að nýta og því tilvalið að mæta kolefnisbindingarþörfinni.
Um leið er afar mikilvægt að skilgreina landbúnaðarland til matvælaframleiðslu ekki síst ríkisjarðir til að við getum mætt þörfum um matvælaöryggi til framtíðar.
Greinin birtist í Bændablaðinu 23. mars






Comments