Orkumál
- Bjarkey O Gunnarsdóttir 
- Mar 22, 2023
- 2 min read
Tók þátt í sérstakri umræðu um orkumál á Alþingi í dag.

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka málshefjanda, hv. þm. Ingibjörgu Isaksen, fyrir þarfa umræðu um veigamikinn málaflokk sem snertir flesta anga nútímasamfélags. Það er nefnilega grundvallaratriði að almenningur hafi tryggan aðgang að raforku. Þetta á ekki síst við um húshitun og almenna notkun enda eru svæði, t.d. bæði á Austurlandi og Vestfjörðum, sem búa ekki við slík gæði vegna þess að uppbygging innviða í flutningi raforku hefur setið á hakanum um langt skeið.
Til þess að tryggja raforku til allra landsmanna og í öll landshorn þarf átak í uppbyggingu innviða, bæði í flutnings- og dreifikerfinu. Ég hef lagt á það áherslu að við jöfnum til fulls flutningsgjöld til að stuðla að auknu byggðajafnrétti en mismunandi flutningsgjöld á raforku veikja búsetuskilyrði á ýmsum svæðum allt í kringum landið. Það er mjög brýnt að bæta afhendingaröryggi raforku. Það er ekki síst brýnt vegna þess að það er gríðarlegt öryggismál.
Með bættum orkuinnviðum tapast sömuleiðis minni orka við flutning sem bætir nýtingu þegar framleiddrar orku. Bætt nýting og orkusparnaður þar sem honum verður komið við er í mínum huga forgangsatriði í orkumálum. Við þurfum að fara betur með. Hér á landi hafa orkuskipti í samgöngum komist á nokkurt skrið enda verið lögð á það mikil áhersla af hálfu stjórnvalda. Framlög til umhverfis- og orkumála hækka um tæpa 6 milljarða, eða 18%, á fjárlögum þessa árs og þar af renna 1,4 milljarðar til Orkusjóðs vegna verkefna sem styðja orkuskipti. Auknar rannsóknir á sviði orkumála eru lykilþáttur í orkuskiptum. Það er mikilvægt að setja aukinn þunga í samþættingu þessara verkefna, annars vegar orkuskiptanna og hins vegar að tryggja raforkuöryggi með sama hætti um land allt. Það þurfum við að gera á ábyrgan hátt enda lykilatriði í því að jafna búsetuskilyrði að landið allt geti tekið þátt í orkuskiptum og gætt sé að því hvaðan orkan til orkuskipta á að koma.
Virðulegi forseti. Það er nú einu sinni þannig á okkar góða landi að hér er framleitt gríðarlegt magn af raforku, 80% hennar fer í mengandi stóriðju og ég tel ærið tilefni til þess að skoða til hlítar hvernig megi skipta þegar framleiddri orku hér á landi betur.






Comments