Mikilvæg bragarbót
- Bjarkey O Gunnarsdóttir

- Dec 16, 2022
- 2 min read

Ræddi þessi mikilvægu mál í störfum þingsins í dag.
Á tímabilinu janúar til september á þessu ári voru 490 kynferðisbrot skráð hjá lögreglunni. Þar af voru 348 framin á þessu sama tímabili. Á bak við þessar tölur eru margir brotnir einstaklingar sem þurfa á mikilvægum stuðningi að halda í kjölfar ofbeldis. Nú fyrir stuttu skilaði starfshópur, sem hæstv. heilbrigðisráðherra fól að móta samræmt verklag um þjónustu við þolendur kynferðisofbeldis, niðurstöðum sínum.
Tilgangur þeirrar vinnu er að samræma móttöku og þjónustu við þolendur á landsvísu og gera hana þannig óháða búsetu og efnahag, sem er gríðarlega dýrmætt. Sama verklag við þetta og er á neyðarmóttöku Landspítalans í Fossvogi fyrir þolendur kynferðisofbeldis verði innleitt á öllum heilbrigðisstofnunum landsins með samræmdu verklagi og skráningu ásamt skipulagðri fræðslu fyrir heilbrigðisstarfsfólk með það að markmiði að styðja betur við skjót og rétt viðbrögð þess. Mikilvægur hluti þess er að þolendum verður tryggð viðeigandi sálfræðiaðstoð að lokinni skýrslutöku hjá lögreglu.
Í gegnum verkefnið Taktu skrefið er þeim gerendum sem vilja láta af háttsemi sinni einnig tryggð viðeigandi aðstoð. Gerendum má ekki gleyma því að án þeirra væri ekkert kynferðisofbeldi. Og eins mikilvægt og það er að taka utan um þolendur og aðstandendur þeirra verða kynferðisbrot aldrei upprætt nema gerendur láti af ofbeldinu. Ríkislögreglustjóri og Neyðarlínan hafa gefið út leiðarvísi um réttarvörslukerfið sem sýnir þolendum hvert á að leita sé á þeim brotið. Þetta er sérstök rafræn þjónustugátt lögreglu í samstarfi við embætti ríkislögreglustjóra fyrir þolendur kynferðisbrota þar sem upplýsingar eru mun aðgengilegri en áður hefur verið.
Þetta er hluti af aðgerðaáætlun stjórnvalda frá 2018 um meðferð kynferðisbrota með það að markmiði að auka upplýsingaflæði til þolenda, en á því var og hefur verið tilfinnanlegur skortur. Það er mjög ánægjulegt og það er tímabært að nú sé tryggt fjármagn í að fylgja þessum málum úr hlaði strax á nýju ári því að umbætur í þessum málaflokki vitum við jú öll að eru sannarlega mikilvægar.






Comments