Langþráð breyting
- Bjarkey O Gunnarsdóttir

- May 18, 2021
- 2 min read

Virðulegi forseti.
Það voru sannarlega góðar fréttir í gær þegar hæstv. félags- og barnamálaráðherra undirritaði reglugerð sem stóreykur þátttöku ríkisins í gleraugnakostnaði fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu. Þetta er breyting sem mun skipta marga einstaklinga máli, líklega í kringum 4.000 manns, ekki síst barnafjölskyldur. Sem dæmi fékk fjögurra ára barn, sem er með +3 á báðum augum, áður fyrr styrk í kringum 7.000 kr. á ári, en mun nú geta fengið allt að 20.000 kr. tvisvar sinnum á ári.
Við hæstv. félags- og barnamálaráðherra áttum gott samtal um þessi mál í munnlegum fyrirspurnum á útmánuðum 2019. Þar lagði ég áherslu á mikilvægi þess að yngstu börnin fái gleraugu án mikils tilkostnaðar og þá sér í lagi þau sem þurfa á þeim að halda sem hluta af læknisfræðilegri meðferð. Þessi tiltölulega fámenni hópur barna er gjarnan á aldrinum fjögurra til átta ára. Augu þeirra eða sjón þroskast ekki eðlilega nema þau noti gleraugu sem, eins og við þekkjum, er oft og tíðum dýr. Hér erum við því ekki að tala um neina munaðarvöru heldur beinlínis nauðsynlegt hjálpartæki fyrir þessi börn svo þau geti vaxið og dafnað eðlilega. Það þekkja jú foreldrar þeirra barna sem hafa þurft að nota gleraugu, hversu kostnaðarsamt það getur verið. Þessar mjúku umgjarðir, sem eru óneitanlega það sem lítil börn þurfa, geta auðvitað geta líka skemmst.
Það er því mikið fagnaðarefni að við sem samfélag skulum vera létta undir með fólki sem þarf á þessari aðstoð að halda sem er vissulega nauðsynleg og partur af heilbrigðisþjónustu. Næsta skref á að vera miðað við hundraðshluta af kostnaði umgjarða og glerja í greiðsluþátttökunni, til að mynda 75%, líkt og kemur fram í frumvarpi mínu um þessi mál sem ég hef lagt fram í þrígang, í stað þess að miða við tiltekna fjárhæð, eins og núverandi kerfi gerir ráð fyrir. En, virðulegi forseti, þetta er sannarlega skref á góðri vegferð.
Rætt í störfum þingsins 18. maí






Comments