Hér er ekki allt á vonarvöl
- Bjarkey O Gunnarsdóttir

- Mar 15, 2022
- 2 min read

Undanfarið hefur nokkuð borið á því í umræðunni að hér sé allt á vonar völ í efnahagsmálum. Vaxtabreytingar Seðlabanka Íslands vegna covid, verðbólga og óstöðugleiki, svo ekki sé minnst á meint aðgerðaleysi stjórnvalda vegna efnahagsáhrifa af stríði Rússneskra stjórnvalda í Úkraínu. Það er nú samt þannig eftir efnahagshremmingar sem að fylgdu heimsfaraldrinum að staða heimilanna er góð þegar litið er til skulda við lánastofnanir þó vissulega þurfi að huga ójafnri stöðu fólk í því tilliti, þar er róður þeirra sem ekki eiga eigið húsnæði þyngstur og algjörlega ljóst að setja þarf þarfir þeirra í forgrunn í húsnæðismálum eins og forsætisráðherra hefur ítrekað sagt.
Staða húseigenda er þó heilt yfir betri nú en hún var fyrir 5 árum, og 7 árum og 10 árum samkvæmt bráðabirgða niðurstöðum lífskjararannsóknar Hagstofu Íslands. Þá er það fagnaðarefni að atvinnuleysi fer ört minnkandi og grunn atvinnuvegir eins og ferðaþjónustan eru hægt og sígandi á góðri leið með að endurheimta fyrri styrk, til marks um það er aukin innlend kortavelta (um 17,3 prósent á milli ára miðað við breytilegt verðlag) vegna aukins straums ferðamanna með tilheyrandi jákvæðum áhrifum á verslun og viðskipti innanlands.
Ráðherraráð um ríkisfjármál fylgist grannt með þróun mála og ef grípa þarf til aðgerða vegna verðbólguþrýstings eða vöruverðshækkana þá munum við nálgast það eins og við höfum nálagast aðrar áskoranir undanfarin ár, með það í huga að slíkar aðgerðir skili sér fyrst og fremst til þeirra sem minnst hafa á milli handanna. Það er mikilvægt að ríkisstuðningur rati á rétta staði ekki endilega upp allan tekjustigann, ekki er síður mikilvægt að þær aðgerðir sem gripið er til hverju sinni styðji við önnur markið ríkisstjórnarinnar. Í þessu tilliti má nefna flata lækkun á vörur eins og eldsneyti sem styður ekki við loftslagsmarkmið stjórnvalda og nær í ríkara mæli til þeirra sem eru í efri lögum tekjustigans.
Nei, forseti það er mikilvægt að aðgerðir séu á félagslegum forsendum og nái til fólks þar sem að það skiptir máli. Bölsýni og barlómur er jafn samofinn efnahagsumræðunni og sú staðreynd að alltaf virðumst við lenda á fótunum.






Comments