Góð ákvörðun að fylgja ráðleggingum vísindamanna
- Bjarkey O Gunnarsdóttir

- Jan 31, 2022
- 3 min read

Eins og oft hefur komið fram þá höfum við frá upphafi faraldursins haft þá skýru stefnu að styðja við almenning og atvinnulífið til að draga úr áhrifum faraldursins eins og kostur er. Það var góð ákvörðun enda hefur þessi stefna skilað okkur góðum árangri með góðum hagvaxtarhorfum og minna atvinnuleysi. Almannahagur er og hefur alltaf verið leiðarljósið í baráttu okkar við þessar áskoranir sem við stöndum frammi fyrir. Það að styðja við afkomu fólks og verja velferðarkerfin eru bestu ákvarðanirnar sem hægt er að taka í erfiðu árferði. Undir þetta taka allar helstu alþjóðastofnanir, hvort sem er á sviði velferðar eða fjármála.
Okkur hefur nefnilega gengið vel að eiga við þennan heimsfaraldur, m.a. vegna þess að pólitísk ákvörðun var tekin í upphafi um að hlusta á sérfræðinga og vísindamenn þar sem byggt var á gögnum og reynslu. Íslenska heilbrigðiskerfið stóðst í rauninni prófið, var í stakk búið til að takast á við faraldurinn með stuðningi og ábyrgum viðbrögðum yfirvalda. Hér hafa verið áætlanir og við höfum farið eftir ráðleggingum, eins og ég sagði, okkar færustu sérfræðinga í hverju einasta skrefi og það er stór hluti af því að við erum komin út úr þessum faraldri.
Við búum að því að hafa getað nýtt styrk ríkisfjármálanna til að styðja við efnahag og afkomu heimila og fyrirtækja í faraldrinum. Sá stuðningur hefur skilað sér í kröftugri viðspyrnu hagkerfisins. Atvinnuástandið hefur batnað hratt og horfur til framtíðar eru bjartari en áður. Þótt óvissan um framvindu faraldursins sé áfram talsverð höfum við lært betur að umgangast þetta ástand, þökk sé samstöðu þjóðarinnar og skilningi á því markmiði stjórnvalda að takmarka skaðann.
Verkefnið nú er að byggja upp hagkerfið og styrk ríkisfjármálanna að nýju með stuðningi við fjölbreyttara og sterkara atvinnulíf, aukinni opinberri fjárfestingu í grænum verkefnum, rannsóknum og nýsköpun og skapandi greinum.
Ríkisstjórnin mun áfram standa vörð um almannaþjónustuna og leggja áherslu á að skattkerfið fjármagni samneysluna, jafni tekjur í samfélaginu og styðji við markmið okkar í loftslagsmálum. Áfram verður rík áhersla á að treysta húsnæðisöryggi með nægri uppbyggingu og félagslegum aðgerðum fyrir tekjulægri hópa, fatlað fólk og eldra fólk.
Á því kjörtímabili sem var að ljúka réðumst við í umfangsmiklar umbætur á skattkerfinu. Við lækkuðum tekjuskatt einstaklinga og það skilar heimilunum um 23 milljörðum í auknar ráðstöfunartekjur. Þetta skiptir máli. Auðvitað var þetta fyrst og fremst gert til þess að reyna að draga úr skattbyrði þeirra tekjulægri.
Eins og ég sagði er endurreisn efnahagslífsins og ríkisfjármálanna í kjölfar heimsfaraldursins gríðarlega mikilvæg og það að endurheimta styrka stöðu ríkissjóðs og tryggja sjálfbærni ríkisfjármálanna til lengri tíma, enda segja lög um opinber fjármál að það þurfum við að gera. Þess vegna þurfum við áfram að vanda til verka. Okkar verkefni er að stuðla að því að verðlag sé stöðugt og við verðum að halda niðri vöxtum. Það er mjög mikilvægt, ekki síst svo þær kjarabætur sem heimilin hafa fengið geti orðið varanlegar. Við verðum að halda áfram að stíga þau mikilvægu skref sem við höfum fram til þessa tekið.
Þrátt fyrir þetta gríðarlega útstreymi úr ríkissjóði sem hefur sett súrefni til atvinnulífsins þá setur það ríkissjóð auðvitað eðli máls samkvæmt í gríðarlegan halla til ákveðins tíma en við gerum ráð fyrir að við verðum réttu megin við núllið innan ekki svo langs tíma. Sannarlega er það framtíðarmúsík og verður að sjálfsögðu að sjá til hvernig úr vinnst af því að við erum jú að kljást við eitthvað sem við vitum ekki hvernig hegðar sér. Eins og við vitum er það fátt sem við getum spáð og spekúlerað fram í tímann í öllu er viðkemur þessum faraldri en við erum hingað komin vegna þess að það hefur verið skynsamleg stjórn efnahagsmála í tíð Katrínar Jakobsdóttur.






Comments