Breytingar á örorkulífeyriskerfinu
- Bjarkey O Gunnarsdóttir

- Feb 20, 2024
- 2 min read

Drög að frumvarpi vegna endurskoðunar örorkulífeyriskerfisins hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að horfið verði frá örorkumatinu eins og við þekkjum það í dag. Með nýja matinu er horft heildrænt á einstaklinginn en ekki einungis einblínt á læknisfræðilega þætti. Markmiðið með þessu er að bæta afkomu þeirra sem fá greiddan örorkulífeyri, einfalda kerfið, draga úr tekjutengingum, auka hvata til atvinnuþátttöku og gera örorkulífeyriskerfið skilvirkara, gagnsærra og réttlátara. Eitt af því mikilvæga er að stuðningur er aukinn við fólk meðan það er í endurhæfingu og líka aukin samvinna þjónustukerfa sem á að koma í veg fyrir það og hindra að fólk falli á milli kerfa.
Eins og ráðherra sagði, með leyfi forseta:
„Breytingarnar fela í sér nýja hugsun, breiðari nálgun, og mestu umbyltingu á örorkulífeyriskerfinu frá upphafi. Við umbyltinguna tökum við betur utan um fólk en áður og búum til hvata til að gera því kleift að blómstra. Markmiðið er skýrt: Að stuðla að bættum kjörum, aukinni virkni og meira öryggi og vellíðan fólks.“
Það skiptir nefnilega máli að þjónustukerfin tali saman og með því sé þá hægt að stuðla að heildstæðri nálgun og samfellu, m.a. í endurhæfingu fólks þannig að það fái rétta þjónustu á réttum tíma. Þessar fyrirhuguðu breytingar auka ekki einungis réttindi örorkulífeyrisþega heldur mun langstærstur hluti þeirra sem fá greiddan örorkulífeyri samkvæmt gildandi lögum í dag fá hærri greiðslur í nýja kerfinu og það á ekki síst við um þau sem fá lægstar greiðslur í dag.
Eitt af því sem nýtt er í þessu er að greiða hlutaörorkulífeyri. Það er fyrir fólk sem getur unnið að hluta og með því aukið ráðstöfunartekjur sínar. Um leið verður tekinn upp svokallaður virknistyrkur sem er ætlað að grípa fólk á meðan það leitar að vinnu, ef ekki gengur að fá hlutastarf grípur sem sagt virknistyrkurinn viðkomandi. Eins og við þekkjum lækka gjarnan greiðslur til fólks um leið og það fær greidd laun á vinnumarkaði en í þessu nýja kerfi eru breytt frítekjumörk sem gefa fólki sem fær greiddan hlut af örorkulífeyri tækifæri til að afla sér tekna án þess að það hafi strax áhrif á greiðslur þeirra.
Ég vona sannarlega að okkur takist að koma á þessum breytingum og hlakka til að takast á við þetta mál í velferðarnefnd.






Comments