Barnaþing - skýrsla
- Bjarkey O Gunnarsdóttir

- Jun 9, 2022
- 3 min read

Í vetur sýndi ríkismiðillinn þættina Verbúðina við almenna hrifningu landsmanna, enda efnið vel unnið og umfjöllunarefnið samofið taugakerfi okkar sem hér byggjum land. Í þáttunum var rakin saga gríðarlegra þjóðfélagsbreytinga, saga framsalsins og staða verkafólks um land allt. Þættirnir ýfðu upp mörg sár og umræðu sem kann að hafa legið í dvala um árabil.
Meðal þeirra mála sem dregin voru fram var vinna barna, en eins og við svo mög þekkjum, ekki síst þau sem ólust upp í sjávarbyggðum í kringum landið, unnu börn við erfiðisvinnu, við misjafnar aðstæður langt fram á tíunda áratug síðustu aldar. Þó að það kunni að koma illa við kaunin á harðduglegum Íslendingum, sem ekki varð meint af því að mæta vansvefta í skólann í sjöunda bekk eru réttarbætur og valdefling barna síðustu áratugina, ekkert minna en stórstökk fram á við.
Í mínum huga eru börn mikilvægasti hópur hvers samfélags, þau eru lykillinn að farsælli framtíð lands og þjóðar og ég leyfi mér að segja að framtíðin er björt. Á barnaþingi nú í byrjun mars, þar sem 350 barnaþingmenn víðsvegar af landinu komu saman snérist umræðan sannarlega um stóru málin (með leyfi forseta), blóðgjöf samkynhneigðra karlmanna, fátækt, eflingu fræðslu um kynheilbrigði, náttúruvernd og loftlagsmál, dýravelferð og svo ótal margt annað.
Boðskapurinn er ærinn og erindið brýnt, og deginum ljósara af skýrslu barnaþings 2022 að barnaþingmenn þess lands ætla sér ekki að skilja neitt okkar eftir undir vegg, þvert á móti. Niðurstöðurnar einkennast af virðingu til handa öllu fólki, náttúru og dýrum og í fyrirrúmi í þeirra nálgun er náungakærleikur og samábyrgð, nokkuð sem flest okkar geta fellt sig við.
Það er mikilvægt að við hér á Alþingi hlustum eftir röddum barna í öllu tilliti, það er okkar hlutverk að samþætta kröfur almennings, byggja undir framtíðina svo best fari á. Og hver eru betur til þess fallin að leggja vörðurnar á þeirri leið en þau sem eiga eftir að lifa hana? Enginn virðulegi forseti, það er enginn betur til þess fallinn. Barnaþing er vissulega varða á þeirri leið en ég held samt sem áður að stjórnmálin geri of lítið af því að ræða við börn og málefni þeim tengd við þau sjálf.
Í störfum okkar sem þingmenn getum við haft áhrif á margt sem varðar börn og mikilvægt að við gætum að og hagsmuna þeirra og búum þeim umhverfi sem styður við að þau fái að þroskast og dafna. Það þýðir að við tryggjum jöfn tækifæri fyrir öll börn, ekki síst þeirra sem veika rödd hafa í samfélaginu. Það þýðir að við tryggjum jafnt aðgengi barna að nauðsynlegri þjónustu en sömuleiðis að við tryggjum þeim aðgang að framtíðinni með því að byggja upp grænt og kolefnishlutlaust samfélag, að við breytum umgengni okkar við viðkvæma náttúru Íslands og gerum betur, hvert og eitt í því að aðlagast þeim raunveruleika sem eru loftlagsbreytingar af mannavöldum, eftir því er kallað.
Það þýðir að spyrja börn og ungmenni álits þegar lítur að málum sem snerta þau beint, til að mynda um menntun þeirra, þjónusta í skólum, t.a.m aukinni geðheilbrigðisþjónustu sem að kallað er eftir, öryggi þeirra og vil brýna að við beitum okkur af öllum okkar þunga fyrir ofbeldisforvörnum, en ofbeldi gegn börnum meinsemd í okkar samfélagi. Það sama á við um ofbeldi barna á milli. Þá er þörfin fyrir ítar- og sérþjónustu síst að minnka en þetta er gríðarlegt réttlætismál, að samfélagið geri það sem í þess valdi stendur til þess að bæta líðan og tækifæri þeirra sem þurfa á auknum stuðningi að halda. Enda snýr málið að framtíðarmöguleikar þeirra til að vera virk í samfélaginu, á vinnumarkaði og hverju sem þau kjósa.
Þó að tíminn vilji slá gullljóma á fortíðina og margt hafi verið gott í gamla daga þá eru flest börn betur sett í dag. Tækifæri, aðgengi og þjónusta við þau, á þeirra forsendum hefur vaxið og er það vel.
Umræður á Alþingi um munnlega skýrslu forsætisráðherra um Barnaþing






Comments