top of page

Að nýta sér aðstæður þegar vá steðjar að!

  • Writer: Bjarkey O Gunnarsdóttir
    Bjarkey O Gunnarsdóttir
  • Apr 18, 2020
  • 1 min read

Nú fer stjórnarandstaðan mikinn í fjölmiðlum vegna „ólýðræðislegra vinnubragða.“ Nokkrir fulltrúar hafa sakað forseta Alþingis um óheiðarleika og lygar þegar sett eru mál á dagskrá sem bíða fyrstu umræðu svo þau geti komist til umfjöllunar í nefndum Alþingis.

Nú er löngu orðið ljóst að stjórnarandstaðan er afar sundurleitur hópur en þó er morgunljóst hver afstaða formanns Miðflokksins er. Honum skrikaði fótur þegar hann svaraði tölvupósti sem fór á milli þingflokksformanna og ekki gert ráð fyrir því að aðrir væru þar í felum en þar sagði hann: „Því færri óumdeildum málum sem þau koma áfram þeim mun þrengra verður um sérstöku áhugamálin þeirra,“ svo bætir hann við „Þeim mun meira færist yfir á síðasta þing kjörtímabilsins þar sem málin verða erfiðari bæði gagnvart stjórnarandstöðu og á milli stjórnarflokkanna.“

Það er því morgunljóst að markmið Miðflokksins, stærsta flokksins í stjórnarandstöðu er að nýta sér neyðarástandið sem ríkir í samfélaginu vegna heimsfaraldurs í pólitískum tilgangi. Þetta er ekkert nema Davíðstaktík, að vera á móti öllum málum til að skapa ágreining og ringulreið og ekki er að sjá annað en að hinir stjórnarandstöðuflokkarnir séu þessu sammála. Að nýta sér þær takmarkanir sem allt samfélagið stendur frammi fyrir til að fara í kosningabaráttu.

Hér er eingöngu verið að reyna að klekkja á ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur. Það er aumkunarvert að beita slíkum meðulum þegar unnið er að viðbrögðum við dýpstu efnahagskreppu í manna minnum.







 
 
 

Comments


  • facebook
  • twitter
  • linkedin

©2023 BY BJARKEY OLSEN

bottom of page