top of page

Alþjóðlegur dagur breytingaskeiðs kvenna

  • Writer: Bjarkey O Gunnarsdóttir
    Bjarkey O Gunnarsdóttir
  • Oct 18, 2023
  • 2 min read

Flutt í störfum Alþingis í dag.


ree

Í dag er alþjóðlegur dagur breytingaskeiðsins. Það er óhætt að segja að það sé ákveðin vitundarvakning varðandi breytingaskeiðið hér á landi. Þetta orð, breytingaskeið, hefur í gegnum tíðina verið mjög neikvætt orð og gjarnan tengt við eldri konur sem fá hita- og svitakóf og breytingar á blæðingum. En er þetta blessaða breytingaskeið bara það sem eldri konur ganga í gegnum og eru þetta einu einkennin? Ó nei.



Einkenni breytingaskeiðsins geta verið ansi lúmsk og alls ekki þannig að við tengjum mörg þeirra við hormónabreytingar að fyrra bragði, t.d. kvíði, kláði undir húð, svimi, hitakóf, vöðva- og liðverkir, heilaþoka, minnisleysi, svefnleysi, algjört orkuleysi, svo fátt eitt sé talið. Því miður heyri ég meira um það að konur séu ranglega greindar með kulnun, með gigt eða þær jafnvel fengið þunglyndislyf en eru raunverulega að takast á við breytingaskeiðið.


Það er mikilvægt að ræða þessi mál og átta sig á að konur geta byrjað á breytingaskeiðinu fyrir fertugt jafnvel þó að þær hafi enn blæðingar. Þetta tímabil er mörgum konum oft erfitt og því mikilvægt að geta rætt um þessi mál bæði heima og á vinnustað. Þetta er ekki nöldur heldur geta einkennin beinlínis verið lífshamlandi. En það er hjálp að fá. Mörgum konum reynist vel að fara á hormónauppbótarmeðferð á meðan aðrar kjósa að fara óhefðbundnar leiðir.


Það er þó mikilvægt að halda því til haga að sumar konur upplifa breytingaskeiðið sem jákvæða reynslu. Þær finna fyrir aukinni vellíðan og frjálsræði, t.d. þegar kemur að kynlífi án blæðinga og þungunarhættu og sjá fram á rólegri og þægilegri tíma með meira jafnvægi og aukinni sálrænni vellíðan.


Sjálf hef ég í tíma og ótíma rifið upp hurðir og glugga þar sem ég er í hitakófi og kæli um leið bæði heimilis- og samstarfsfólk. Ég hef líka fengið flest þeirra einkenna á þeim tíu árum sem ég hef verið á breytingaskeiðinu sem ég nefndi hér í upphafi og fæ sum enn þrátt fyrir að hafa valið hormónauppbótarmeðferð. En ég get sagt ykkur það að mínu heimilisfólki er hlýrra, enda mikill munur á mínum einkennum. Það er víða að finna fróðleik um þessi málefni og við eigum að vera ófeimin við að ræða breytingaskeiðið því að það skiptir okkur öll máli, ekki bara konurnar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)


Fyrir nánari upplýsingar bendi ég t.d. á kvennarad.is og gynamedica.is og svo eru fjölmargir þættir á Spotify um þetta málefni.

 
 
 

Comments


  • facebook
  • twitter
  • linkedin

©2023 BY BJARKEY OLSEN

bottom of page