Orkuskipti
- Bjarkey O Gunnarsdóttir

- Jun 5, 2019
- 2 min read

Ræddi þetta í störfum þingsins í morgun.
Herra forseti.
Í gær kynnti ríkisstjórnin næstu skref varðandi orkuskipti á Íslandi. Um er að ræða 450 millj. kr. ráðstöfun til að greiða fyrir því að Íslendingar og fólk sem sækir okkur heim geti notast við aðra orkugjafa en jarðefnaeldsneyti á bílana sína.
Það liggur fyrir að við verðum að gjörbreyta ferðavenjum okkar og taka til notkunar umhverfisvænni orkugjafa. Mörgum finnst það erfið tilhugsun, enda er landið okkar stórt og oft langt að fara að sækja sér þjónustu, svo ekki sé talað um alla ferðamennina sem ferðast um landið á bílum, allt frá því að þeir lenda í Leifsstöð.
En þetta á ekki að vera erfitt og þetta verður ekki verði erfitt þegar þessi áætlun er komin til framkvæmda.
Þegar internetið var nýtt af nálinni var flókið að tengjast því og einhverjir muna líklega eftir því þegar ekki var hægt að skoða vefmiðla án þess að taka heimasímann úr sambandi. En nú þykir þráðlaust net vera sjálfsagður hlutur, enda orðið ein af okkar aðalsamskiptaleiðum. Staðan ætti að vera eins þegar kemur að notkun umhverfisvænna orkugjafa. Íslendingar eiga að geta ferðast frá Húsavík til Reykjavíkur án þess að hafa áhyggjur af því að komast alla leið. Ferðamenn eiga að geta treyst á að þeir geti við gististað sinn hlaðið rafmagnsbíl sem þeir leigja af bílaleigum.
En rafmagn er þó ekki eini umhverfisvænu orkugjafinn. Vetni og metan á einnig að vera aðgengilegra og nú er Skinney Þinganes t.d. farið að nota repjuolíu sem eldsneyti á skipaflotann sinn. Í því samhengi má nefna að umhverfisráðherra hefur einnig kynnt reglugerð um bann við notkun svartolíu í íslenskri landhelgi sem á að taka gildi um næstu áramót.
Virðulegur forseti.
Í morgun voru fréttir um að hop jökla hefði lokað hefðbundinni leið á Vatnajökul. Það er auðvitað bein afleiðing þeirra hamfarahlýnunar sem við þurfum að takast á við. Við verðum líka að muna að öll skref skipta máli, stór og smá. Við þurfum að standa saman og hugsa um daglega rútínu okkar, hvað við getum gert betur, hvert og eitt okkar, því að skiptir líka máli.






Comments