Um ríkisfjármálaáætlun
- Bjarkey O Gunnarsdóttir

- Mar 28, 2019
- 6 min read

Fyrri ræða flutt 26. mars. 2019
Herra forseti. Fyrir ári ræddum við ríkisfjármálaáætlun ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur og eins og lögin segja ber að endurskoða hana árlega. Þetta er í fyrsta skipti sem við komumst á þetta stig í lögum um opinber fjármál, þ.e. að sama ríkisstjórn setji niður áætlun og endurskoði hana síðan.
Fjármálaáætlunin sem var lögð fram í fyrra var sóknaráætlun. Hún byggði á því að núverandi ríkisstjórn ætlar sér að nýta svigrúmið sem hagvöxtur síðustu ára skapaði til þess að bæta kjör fólks til að fjárfesta í samfélagslegum innviðum og til að verja félagslegan stöðugleika. Endurskoðun áætlunarinnar felst í því að aðlaga hana nýjustu hagspám. Nýja hagspá Hagstofunnar er mánaðargömul og aðalfréttirnar í henni voru þær að spá um hagvöxt á árinu 2019 yrði talsvert minni en í forsendum fjármálaáætlunar fyrir ári síðan. Óvissan hefur svo magnast á þeim tíma sem liðið hefur, engin loðna og óvissa þessi dægrin í flugrekstri sem og vegna kjarasamninga.
En við skulum ekki gleyma því að hagkerfið er sterkt þó að skammtímasveiflur komi. Náttúruperlurnar sem ferðamenn koma að skoða eru ekki á förum. Þó að loðnan hafi ekki fundist standa aðrir stofnar betur. Fjárfesting í sjávarútvegi er búin að vera mikil og mun leiða til aukinnar verðmætasköpunar.
Rétt er að fara stuttlega yfir forsendurnar sem liggja að baki þessari uppfærslu. Efnahagsforsendur á Íslandi eru í sjálfu sér öfundsverðar í alþjóðlegum samanburði. Heimili landsins, fyrirtæki og hið opinbera hafa greitt niður formúur af skuldum síðustu ár. Það endurspeglast í vaxtakjörum ríkissjóðs sem aldrei hafa verið betri en í síðustu útgáfu, um 1,6%. Þá hafa vextir í landinu farið lækkandi undanfarin misseri og t.d. má nefna að bestu kjör á breytilegum verðtryggðum vöxtum á íbúðalánum voru 2,15% í janúar.
Það eru einmitt rökin fyrir því að ríkissjóður eigi að standa sterkt, til þess að hafa svigrúm til að bregðast við áföllum. Svo getur okkur auðvitað greint á um hvaða skuldahlutfalli sé rétt að stefna að, hvort það eigi að vera 20, 25 eða 30%. Í dag skuldar ríkissjóður samkvæmt viðmiði laga um opinber fjármál 26% af vergri landsframleiðslu, kominn sem sagt undir skuldaviðmiðið í lögunum. Við erum í fyrsta skipti í marga áratugi með jákvæða skuldastöðu við útlönd. Við erum sem samfélag lánveitendur en ekki lántakendur. Atvinnustigið er hátt og hingað hafa flust þúsundir frá Evrópu til að vinna á Íslandi og þar með gert hagkerfinu kleift að vaxa svona hratt án þess að verðlagið gæfi eftir. Líkt og ég sagði í ræðu minni um fjármálaáætlun í fyrra gat það ekki haldið áfram út í hið endalausa að hagkerfið yxi um 4–5% á hverju ári, en því miður stefnir í að það dragist hraðar saman en við gerðum ráð fyrir.
Atvinnuvegafjárfesting er að dragast saman og er reiknað með að hún verði lítillega undir meðaltalinu frá árinu 2019. Atvinnuvegafjárfestingin er það sem eykur framleiðslugeta í hagkerfinu til lengri tíma og því ekki gott ef hún lækkar of mikið. Peningastefnan hefur talsvert að segja en mikið svigrúm er til staðar þar, enda stýrivextir háir hér á landi miðað við nágrannalönd okkar. Lögbundið hlutverk Seðlabankans er að stuðla að stöðugu verðlagi svo að niðurstaða kjarasamninga mun væntanlega hafa eitthvað að segja um hvað þau í Svörtuloftum gera á næstu misserum. Gangi spárnar eftir verður heildarfjárfesting nálægt langtímameðaltali þó að samsetningin sé önnur en síðustu ár.
Við Vinstri græn höfum talað fyrir því að það sé efnahagslega skynsamlegt að ríkið komi myndarlega að borðinu þegar hægist um í hagkerfinu og það hefur sannarlega hægst á því síðustu vikur og mánuði. Hér leggur ríkisstjórnin til að hið opinbera bæti enn í samgöngumálin, 4 milljörðum er varið til viðbótar í nýframkvæmdir þar. Þá er aukið við nýsköpun og endurgreiðslu kostnaðar til fyrirtækja við rannsóknir og þróun, en í nýsköpun er hagsæld framtíðarinnar tryggð.
Til að íslenskt samfélag geti haldið áfram að dafna þarf að koma til grænn hagvöxtur og hann er að finna á sviði upplýsinga, á sviði þekkingar frekar en í hagvexti, byggðum á stórkarlalegri auðlindanotkun. Einnig er bætt við uppbyggingu hjúkrunarrýma, hálfum milljarði verður bætt við á næsta ári sem eykst í skrefum upp í 2 milljarða á árunum þar á eftir. Þannig verður okkur kleift að fjölga og breyta alls 920 hjúkrunarrýmum og koma til móts við aukna þörf fyrir þjónustu eftir því sem þjóðin eldist.
Áfram er haldið á þeirri braut sem mörkuð var í upphafi þessa stjórnarsamstarfs, að lækka greiðsluþátttöku sjúkratryggðra einstaklinga og gera hana um leið gegnsærri og skilvirkari. Auknir fjármunir eru settir í eflingu heilsugæslunnar sem fyrsta viðkomustaðar sem og í geðheilbrigðisþjónustuna.
Ísland stendur frammi fyrir margvíslegum áskorunum á næstu árum þegar kemur að loftslagsmálum og hefur skuldbundið sig til að fylgja ákvæðum Parísarsáttmálans um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Í þeirri baráttu er þörf á öflugri nýsköpun og nýrri þekkingu, svo sem á sviði orkumála, samgöngumála og sjávarútvegs. Að þessum markmiðum verður unnið, m.a. í samstarfi við umhverfis- og auðlindaráðuneyti, samstarfshóp um orkustefnu og samstarfshóp um aðgerðaáætlun um loftslagsmál.
Eins og kunnugt er hefur verið lögð fram metnaðarfull aðgerðaáætlun í loftslagsmálum til 2030 sem eðli máls samkvæmt þarf að vera í stöðugri endurskoðun. Í greiningum sem vísinda- og tækninefndir á vegum Vísinda- og tækniráðs unnu á síðasta ári um samfélagslegar áskoranir þjóðarinnar á sviði rannsókna og vísinda voru þrjú áherslusvið nefnd: umhverfismál og sjálfbærni, heilsa og velferð og líf og störf í heimi breytinga.
Þessi áherslusvið munu endurspeglast í nýsköpunarstefnu stjórnvalda og aðgerðaáætlun um loftslagsmál.
Í fjármálaáætluninni eru fjárframlög til ýmissa aðgerða sem styðja við markmið í loftslagsmálum, m.a. að vinna að aukinni hagnýtingu tæknilausna í þágu loftslagsmála og auknar rannsóknir á áhrifum loftslagsbreytinga.
Virðulegi forseti. Menntunarstig þjóða ræður miklu um velsæld þeirra og tækifæri. Menntakerfið okkar þarf að vera sem best í stakk búið til að takast á við áskoranir framtíðarinnar. Það getum við gert með því að möguleikar allra til náms séu sem jafnastir og líka að eftirsóknarvert sé að starfa innan menntakerfisins, bæði sem nemendur og starfsmenn.
Ég fagna þeim áformum að skilgreina eigi betur lykiltölur og birta tölfræði sem lýsir framhaldsskólakerfinu en þar á að beina sjónum sérstaklega að aðgengi náms í öllum landshlutum. Með aukinni og betri tölfræði og gagnsærri fjárveitingum ætti skilvirkni að aukast í nýtingu fjármuna og ekki síður að horfa til aukinna gæða í námi og þjónustu.
Breytingar á framlögum til háskólastigsins má m.a. rekja til þess að gert er ráð fyrir hækkun framlags til að tryggja að Ísland nái meðaltali OECD-ríkjanna um fjármögnun háskólastigsins í landinu. Gert er ráð fyrir að það náist á tímabili fjármálaáætlunarinnar miðað við fyrirliggjandi upplýsingar. Þá er gert ráð fyrir hækkun á síðari hluta tímabilsins sem nýtt verður til að fylgja eftir áherslumálum ríkisstjórnarinnar. Á tímabilinu er gert ráð fyrir framlagi til að fjármagna aðgerðir til að fjölga nýnemum í grunnnámi kennaranáms þar sem áform eru um greiðslur til kennaranema í starfsnámi, sem ég tel að sé afar mikilvægt, sem og er einnig fyrirhuguð breyting á LÍN sem gerir m.a. ráð fyrir að hluta láns megi breyta í styrk, sem að mínu mati er afar jákvætt og tímabært skref.
Ríkisstjórnin fjármagnar umfangsmiklar aðgerðir til að liðka fyrir kjarasamningum. Líkt og ég talaði um fyrir ári og sagt var fyrir kosningar ætluðum við að hliðra til í skattkerfinu, auka sérstaklega ráðstöfunartekjur lágtekjuhópa og lækka skattbyrði lægstu launa, dreifa byrðunum jafnar. Ríkisstjórnin hefur nú skilað af sér tillögum um hvernig það skuli gert með því að taka upp nýtt skattþrep fyrir lægstu tekjur og nemur sú breyting um 2% lækkun skattbyrði fyrir þann hóp.
Þá hefur ríkisstjórnin aukið við stuðning til handa tekjulægri barnafjölskyldum, en á það hefur verið bent að hættan á fátækt sé mest hjá tekjulágum barnafjölskyldum, sérstaklega einstæðum foreldrum. Því er mikilvægt að stýra aðstoðinni þangað sem þörfin er mest. Inn á þetta er komið í fjármálaáætlun þar sem á að taka til skoðunar viðmiðunarfjárhæðir kerfisins til lengri tíma. Þar tel ég að geti verið skynsamlegt að hækka hlutfallslega viðmiðunarfjárhæðir fyrir einstæða foreldra enda sýna greiningar að þar er mesta áhættan á fátækt. Umönnunarbyrðin er þyngri hjá einstæðum foreldrum og minni tækifæri til að drýgja tekjur með aukinni vinnu.
Virðulegi forseti. Við stöndum við það sem sagt var í stjórnarsáttmála, að þessi ríkisstjórn myndi lengja fæðingarorlofið. Nú er það á dagskrá næsta og þarnæsta árs eins og kemur fram í þessari fjármálaáætlun. Það er stórt skref í átt að því að brúa umönnunarbilið milli leikskólavistar og loka fæðingarorlofs og vona ég að flestir fagni því stóra skrefi. Fæðingarorlofið hefur ekki lengst síðan árið 2000.
Síðast en ekki síst er verið að stórauka framlög í almenna íbúðakerfið til að mæta réttlátri kröfu verkalýðshreyfingarinnar um burðugt félagslegt húsnæðiskerfi. Það var mikil ánægja með tillögur átakshóps forsætisráðherra í húsnæðismálum og þessi aðgerð er liður í því. Einnig er ákaflega gott að sjá að stuðningurinn við húsnæðismarkaðinn er í meiri mæli farinn að snúast um að byggja upp húsnæði því að í því hefur vandinn legið, að ekki var byggt nóg af íbúðum eftir bankahrunið. Um það eru hagfræðingarnir sem fjallað hafa um þetta sammála, að mikilvægt sé að stuðningurinn sé markviss til að ná markmiði sínu, þ.e. að draga úr húsnæðiskostnaði, sérstaklega fyrir tekjulága hópa.
Herra forseti. Við munum nýta það svigrúm sem er til staðar til að halda áfram uppbyggingu samfélagsins nú þegar hagvöxtur dregst saman hraðar en spár gerðu ráð fyrir og við bætum í fjárfestingar. Þessi áætlun tryggir fjárframlög til þeirrar sóknar fyrir íslenskt samfélag sem boðuð er í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Þrek hagkerfisins er mikið vegna aðgerða undanfarinna ára og við höfum allar forsendur til að komast vel í gegnum þær þrátt fyrir þær áskoranir sem fram undan eru.






Comments