top of page

Vændi

  • Writer: Bjarkey O Gunnarsdóttir
    Bjarkey O Gunnarsdóttir
  • Mar 6, 2019
  • 2 min read

Ræddi um vændi í störfum þingsins í dag.

Virðulegi forseti.

Ég viðurkenni að mér stóð ekki á sama í gærkvöldi við áhorf á fréttaskýringarþáttinn Kveik. Þar var hið andstyggilega samfélagsmein sem vændi er til umfjöllunar. Vændisstarfsemi er greinilega umtalsvert meiri hér á landi en margir gera sér grein fyrir. Talað er um að framboð á vændi sé yfirdrifið og að það sé jafn auðvelt að kaupa vændi eins og að panta mat. Varla viljum við hafa samfélagið með þessum hætti, að það sé bara eins og að kaupa pítsu að panta vændi.

Árið 2009 tókum við upp hér á Íslandi sænsku leiðina þar sem sala á vændi er lögleg en kaupin ólögleg. Auk þess er vændi skilgreint í lögum sem ofbeldi. Refsingar við vændi eru þó allt of vægar hér á landi að mínu mati og enn ríkir nafnleynd í slíkum dómum ólíkt því sem tíðkast hjá frændum okkar í Svíþjóð þar sem vændiskaupendur eru nafngreindir. Maður skyldi ætla að nafngreining myndi hafa áhrif á þá sem velta fyrir sér þessum fyrirlitlegu viðskiptum og það finnst mér að við eigum að taka upp.

Í öllu falli er aðgerða þörf til að minnka eftirspurn eftir vændi hér á landi. Þó að til séu þeir einstaklingar sem skilgreina sig sem hamingjusömu hóruna eru fleiri sem glíma við alvarlegar afleiðingar þess að hafa starfað við vændi. Þá getur reynst gríðarlega erfitt fyrir fólk að losna úr vændi og málaflokkurinn er flókinn viðureignar fyrir lögreglu eins og endurspeglast m.a. í þeim stóra hópi þolenda vændis sem hafa leitað sér aðstoðar hjá Bjarkarhlíð.

Kannski ætti ekkert af þessu að koma okkur neitt sérstaklega á óvart ef litið er til þess að einn staðurinn sem var til umfjöllunar í gærkvöldi er steinsnar frá Alþingi og Héraðsdómi Reykjavíkur, rétt hinum megin við Austurvöll. Göngum við mörg hver daglega þar fram hjá á leið okkar til og frá vinnu, sjáum hvað þar fer fram. Vændi er kynferðisofbeldi og það á að afgreiða það í dómskerfinu sem slíkt. Og til að það sé sagt þá skulum við aldrei tala öðruvísi en þannig að ábyrgðin liggur hjá þeim sem kaupa vændi. Ábyrgðin liggur þar og þar á hún að vera. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

 
 
 

Comments


  • facebook
  • twitter
  • linkedin

©2023 BY BJARKEY OLSEN

bottom of page