Það sem okkur þykir sjálfsagt.
- Bjarkey O Gunnarsdóttir

- Dec 11, 2018
- 2 min read

Mynd fengin af stefanjon.is
Í dag ræddi ég í störfum þingsins hvað framlög okkar til þróunarsamvinnu geta haft mikil áhrif og á marga, að hafa aðgang að því sjálfsagða. Á einungis fimm árum hafa 67.000 manns í sex héruðum í Sambesíu-fylki í Mósambík fengið aðgang að hreinu vatni og 60.000 nemendur við 145 skóla hafa aðgang að hreinu vatni og bættri salernisaðstöðu í gegnum íslenska þróunarsamvinnu. Ísland hefur fjármagnað að stórum hluta vatns- og salernisverkefni í Mósambík frá árinu 2014 og heldur UNICEF utan um verkefnið í samstarfi við yfirvöld í Sambesíu-fylki. Þetta er gríðarlega mikilvægt heilbrigðismál, en á hverju ári deyja um 37.000 manns í Mósambík vegna skorts á hreinu vatni og lélegri eða engri salernisaðstöðu.
Í þessu fátækasta fylki í Mósambík búa tæpar 5 milljónir manna og bara 1/3 hefur aðgang að hreinu vatni og tæp 90% hafa ekki aðgang að viðunandi salernisaðstöðu. Í Sambesíu eru u.þ.b. helmingur barna með mikla vaxtarskerðingu vegna vannæringar og skorts á hreinu vatni og hreinlætisaðstöðu.
Sá stuðningur sem Ísland veitir verður til þess að reistir verða nokkrir vatnspóstar í Pebane-héraði sem hefur þau áhrif að börn og konur sem oftar en ekki sjá um vatnsöflun þurfa ekki lengur að ganga tvo til þrjá kílómetra á hverjum degi til að sækja vatn í mengaða á. Það hefur jákvæð áhrif á heilsu allra í þorpinu, ekki síst barnanna.
Svipaða sögu er hægt að segja í Buikwe-héraði í Úganda, en þar verða um 50.000 manns komnir með aðgang að hreinu vatni, ómenguðu neysluvatni, þegar öðrum áfanga í vatnsverkefni Íslands í héraðinu lýkur á næsta ári.
Nýverið undirritaði Unnur Orradóttir Ramette, sendiherra Íslands í Kampala, samning við Water Mission Úganda um áframhaldandi samstarf. Þegar þeim áfanga lýkur verður búið að byggja um 25 vatnsveitur fyrir íslenskt þróunarfé sem dreifa vatni í rúmlega 100 vatnspósta í tæplega 40 fiskimannaþorpum við strendur Viktoríuvatns. Því til viðbótar er verið að byggja 150 salernisbyggingar til almenningsnota í sömu þorpum, eitthvað sem okkur Íslendingum þykir sjálfsagt að hafa aðgang að.
Ég verða benda fólki á sannargjafir.is hjá UNICEF þar sem við getum keypt lífsnauðsynleg hjálpargögn fyrir bágstödd börn.
Á heimasíður þeirra kemur m.a. fram:
Sannar gjafir UNICEF eru keyptar í nafni þess sem þig langar að gleðja. Þú færð fallegt gjafabréf með ljósmynd og lýsingu á gjöfinni og lætur viðkomandi fá bréfið. Hjálpargögnin sjálf eru hins vegar send úr birgðastöð UNICEF til barna í neyð.
Þú getur valið um margs konar hjálpargögn í öllum verðflokkum. Öll eiga þau eitt sameiginlegt: Að bæta líf barna um víða veröld.






Comments