top of page

Kobenhagen Fur

  • Writer: Bjarkey O Gunnarsdóttir
    Bjarkey O Gunnarsdóttir
  • Mar 4, 2018
  • 3 min read

Ég átti þess kost fyrir skömmu síðan að heimsækja uppboðshúsið Kobenhagen Fur og hönnunarsetur þeirra ásamt formanni og stjórn íslenskra loðdýrabænda.

Það var frekar kalt í henni Kaupmannahöfn þegar ég lenti síðdegis á föstudegi en um leið og ég var búin að koma mér fyrir á hótelinu þá var ég drifin ásamt stjórninni til að hitta Peder sem er dýrlæknir og hefur séð um samskipti við íslenska loðdýrabændur er lýtur að hans starfssviði. Eitt og annað rætt er lýtur að velferð dýra og almennu heilbrigði íslenskra minka. Hress og skemmtilegur karl og eins og sjá má á myndinni var Birni formanni færð gjöf þar sem hann er að láta af störfum sem formaður íslenskra loðdýrabænda eftir langt og mikið starf.

Daginn eftir fórum við í hönnunarhús, Kobenhagen Fur Studio, þar sem Júlía framkvæmdastjóri tók á móti okkur og fór yfir þeirra starfsemi. Afar áhugavert og skemmtilegt. Mikil tengsl eru við háskóla landsins og reyna þau að fiska góða "talenta" í hönnun og bjóða þeim að vera starfsnemar. Við hittum eina unga konu sem er starfsnemi og hún sagði okkur frá því verki sem hún er að vinna. Hún sagði okkur líka að þegar hún hefði klippt sitt fyrsta skinn þá hefði hún alveg verið með hjartað í buxunum enda afar dýrt og viðkvæmt efni. En skrekkurinn var fljótt úr henni og mér fannst alveg mögnuð flíkin sem hún var að hanna sem var með svolítið íslensku yfirbragði og vísun í náttúruna.

Júlía sýndi okkur margskonar prufur sem hannaðar hafa verið og eru í hönnun fyrir tískuhús um allan heim. En það sem kom kannski mest á óvart var það samstarf sem þau hafa við margskonar aðila, blómaskreyti og hárgreiðslufólk svo eitthvað sé nefnt. Hugsun manns er gjarnan þröng þegar kemur að umfjöllun um úrvinnslu minnkaskinna en hún sýndi okkur svo sannarlega að það er bara hugurinn sem takmarkar það sem hægt er að gera. En myndirnar að neðan tala sínu máli.

Að lokinni þessari heimsókn fórum við í uppboðshúsið og þar byrjuðum við á að funda með Louise og Jens sem eru hluti af stjórnunarteymi Kobenhagen Fur. Við ræddum um dýravelferðarmál, kröfur sem gerðar eru á íslenska framleiðslu umfram okkar lög og stöðuna sem framundan er í greininni en verð hefur verið frekar lágt í nokkur ár og margir bændur á Norðurlöndunum sem hreinlega hafa það ekki af og þurfa að hætta rekstri.

Að fundi loknum fylgdi Louise, sem sér um öll samskipti við íslenska loðdýrabændur fyrir uppboðshúsið, okkur í gegnum uppboðshúsið sem er svo margfalt umfangsmeira og starfsemin flóknari en ég hafði gert mér í hugarlund. Mér þótti áhugavert að sjá að henni var allstaðar tekið með brosi og kveðju og komst að því að hún hafði byrjað á "gólfinu" eins og sagt er. Hún hafði, fyrir margt löngu, komið á "opið hús" sem haldið var einu sinni í viku og var ákveðin eftir þá heimsókn að þarna vildi hún vinna. Hún sagðist hafa hringt í hverri viku og óskað eftir starfi og á endanum hefði hún verið ráðin. Staðföst og skemmtileg kona.

Rúmlega 600 manns vinna í húsinu og mikið at í gangi þegar uppboð fara fram því þá bætast líka við sölubásar þar sem eitt og annað er til sölu, bæði vörur úr minka- og refaskinnum en líka allskonar skart sem ekki endilega hefur skinni til að skarta. Ótrúlega margt fallegt í boði bæði pelsar en líka svo margar smávörur, töskur, hringir, hálsmen, skóskart, sjöl og margt fleira.

Það kemur endalaust á óvart hvað hægt er að gera. Tveir pelsar sem til sýnis voru eru verðlaunapelsar frá starfsnemum úr hönnunarhúsinu og svo voru tveir í glerbúri svona eins og demantarnir í bíómyndunum. Þeirra tilvísun eru sagnir og ævintýri algerlega magnað að sjá og ljóst að margar vinnustundir liggja þar að baki.

Afar fróðleg og skemmtileg heimsókn og í dagslok fannst mér tilvalið að fá mynd af stjórninni ásamt mér og Louise sem heillaði mig með fróðleik og vinalegu viðmóti.

 
 
 

Comments


  • facebook
  • twitter
  • linkedin

©2023 BY BJARKEY OLSEN

bottom of page